Fréttir
  • Date
    09
    2025 maí

    Skráning í fermingarfræðslu 2025-2026 er hafin í Fossvogsprestakalli

    Fermingarfræðsla í Fossvogsprestakalli, Bústaðakirkju og Grensáskirkju, hefst með námskeiði eftir miðjan ágúst. Skráning fer fram hér á vefnum og er mikilvægt að foreldrar og forráðamenn fylli skráningarformið vel út, skrái þar rétt netföng og heimilisföng því samskiptin í framhaldinu fara heilmikið fram í gegnum tölvupóst. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur málið. Verið hjartanlega velkomin í fermingarstörfin í Fossvogsprestakalli. 

     

     

  • Date
    04
    2025 maí

    Útskrift úr Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar fór fram í Grensáskirkju

    Eva Sól Andrésdóttir og Gréta Petrína Zimsen voru útskrifaðar úr Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar við hátíðlega athöfn í Grensáskirkju, sunnudaginn 4. maí sl. Sr. Laufey Brá Jónsdóttir þjónaði fyrir altari. Sólveig Franklínsdóttir, æskulýðsfulltrúi Fossvogsprestakalls afhenti þeim útskriftarskjölin fyrir hönd Leiðtogaskólans. Við óskum Evu Sól og Grétu Petrínu innilega til hamingju með útskriftina. Guð verndi þær í lífi og starfi.

  • Date
    24
    2025 April

    Myndlistarsýning leikskólabarna í anddyri Bústaðakirkju

    Listaverk leikskólabarna frá leikskólum hverfisins prýða anddyri Bústaðakirkju þessa dagana. Sýningin var opnuð í dag, á Sumardaginn fyrsta. Þá fór fram í Bústaðakirkju stutt samvera áður en gengið var fylktu liði í skrúðgöngu niður í Vík. Skólahljómsveit Austurbæjar spilaði nokkur vel valin lög, Antonía Hevesí lék á píanó með Fanný Lísu Hevesí, sem söng tvö sumarleg lög. Hjalti Guðmundsson formaður nemendafélags Réttarholtsskóla flutti ávarp. Við þökkum fyrir samveruna í Bústaðakirkju í dag. Gleðilegt sumar. 

  • Date
    24
    2025 April

    Gleðidagar í kjölfar páska

    Helgihald um dymbilviku og páska var ágætlega sótt í Fossvogsprestakalli. Við nutum einsöngs og samsöngs, kórsöngs og samveru. Á Páskadagsmorgni var síðan boðið til morgunverðar að loknum hátíðarguðsþjónustum í báðum kirkjum. Við þökkum öllum þátttöku í helgihaldi dymbilviku og páska. Megi upprisusól páskanna lýsa upp tilveru ykkar. Verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju og Grensáskirkju. 

     

  • Date
    13
    2025 April

    Helgihald í Fossvogsprestakalli um dymbilviku og páska

    Dagskrá Fossvogsprestakalls, Bústaðakirkju og Grensáskirkju, í dymbilviku og á páskum er rík og litskrúðug. Hefðbundnir dagskrárliðir eru í báðum kirkjum alla helgidagana um hátíðarnar. Nýjung í helgihaldi er einnig á dagskrá um þessa páska. Guðsþjónusta undir berum himni fer fram við sólarupprás á páskadag um kl. 05:30. Stundin fer fram sunnan við Fossvogskirkju. Nánari upplýsingar um dagskrá prestakallsins má finna á auglýsingunni. Verið hjartanlega velkomin til helgihalds í dymbilviku og á páskum. 

  • Date
    03
    2025 April

    Fermingar hefjast í Fossvogsprestakalli

    Fermingar eru að hefjast í Fossvogsprestakalli. Fermingarathafnirnar eru hátíðarstundir í söfnuðum kirkjunnar. Í Fossvogsprestakalli er aðbúnaður svo ríkur að ekki hefur þurft að takmarka fjölda þeirra sem fylgja hverju fermingarbarni, kirkjurnar báðar eru það rúmgóðar. Allir eru því hjartanlega velkomnir til helgihaldsins. Við biðjum börnunum öllum blessunar á fermingardegi og til framtíðar. Biðjum fyrir þeim og fjölskyldum þeirra, að allt verði þeim til góðs og heilla. 

  • Date
    28
    2025 March

    Motown og kór FÍH, flæðimessa og LEGÓ, sunnudaginn 30. mars

    Unga fólkið verður í fyrirrúmi í helgihaldi sunnudagsins í Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Motown stemning og kór FÍH í Bústaðakirkju kl. 13, flæðimessa og uppskeruhátíð í Grensáskirkju kl. 11. Barnamessan verður á sínum stað í Bústaðakirkju kl. 11. Verið hjartanlega velkomin. 

  • Date
    20
    2025 March

    Útvarpsmessan í Ríkisútvarpinu verður frá Grensáskirkju

    Útvarpsmessa dagsins í Ríkisútvarpinu á Rás eitt, sunnudaginn 23. mars nk. kl. 11:00 verður frá Grensáskirkju. Upptaka fór fram fimmtudaginn 20. mars. Það er bæn okkar í Grensáskirkju að útsending helgihaldsins megi verða öllum þeim sem hlusta, vettvangur andlegrar næringar, friðar og bænar. Við þökkum öllum innilega fyrir þátttökuna í upptökunni og biðjum öllum sem á hlýða blessunar og friðar. 

  • Date
    06
    2025 March

    Við fögnum nýjum prestum

    Séra Laufey Brá Jónsdóttir og séra Sigríður Kristín Helgadóttir hafa verið ráðnar til starfa í Fossvogsprestakalli. Sjö umsóknir bárust um stöðurnar tvær. Við fögnum ráðningu þeirra og bjóðum þær hjartanlega velkomnar til starfa. 

  • Date
    03
    2025 March

    Börnin og unglingarnir í fyrirrúmi á æskulýðsdaginn

    Æskulýðsdagurinn var haldinn hátíðlegur í Fossvogsprestakalli, sunnudaginn 2. mars sl. Skólahljómsveit Austurbæjar lék listir sínar í messu dagsins í Grensáskirkju kl. 11, barnakór Fossvogs söng síðan í guðsþjónustu dagsins í Bústaðakirkju kl. 13. Ungir orgelnemar léku þar á orgel. Barnamessan var á sínum stað kl. 11 í Bústaðakirkju. Við þökkum öllum fyrir samveruna á æskulýðsdaginn í kirkjum Fossvogsprestakalls. 

  • Date
    25
    2025 February

    Sakkeus og kirkjuprakkararnir í LEGÓ

    Sagan af Sakkeus var á dagskrá í kirkjuprakkarastarfinu í Grensáskirkju í dag. LEGÓ er notað til að miðla frásögum Biblíunnar í starfinu, en frásögur Biblíunnar fjalla um elsku Guðs til mannsins og heimsins. Hinn kristni boðskapur er boðskapur mildi og hlýju, fyrirgefningar og kærleika. Sakkeus er ein af kjarnapersónum Biblíunnar og má sjá hann hér upp í tréi á legóspjaldinu í Grensáskirkju. Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi hefur umsjón með kirkjuprakkarastarfinu. Verið hjartanlega velkomin í starfið.

     

  • Date
    24
    2025 February

    Rósir voru afhentar á Konudaginn

    Konudagurinn var haldinn hátíðlegur í báðum kirkjum Fossvogsprestakalls, sunnudaginn 23. febrúar sl. þar sem rósir voru afhentar við kirkjudyr að messum loknum. Hér á myndinni má sjá Andreu Þóru Ásgeirsdóttur kirkjuvörð Bústaðakirkju ásamt nokkrum fermingarstúlkum við rósabúntin að lokinni guðsþjónustu í Bústaðakirkju. Við þökkum öllum þátttökuna í helgihaldi Konudagsins í Fossvogsprestakalli.