11
2025 December

Laufey Erla Kristjánsdóttir og Halldóra Guðmundsdóttir

Árlegur jólafundur Kvenfélags Bústaðasóknar var haldinn mánudagskvöldið 8. desember 2025. Á fundinum voru heiðraðar tvær félagskonur fyrir störf sín fyrir félagið. 

Laufey Erla Kristjánsdóttir og Halldóra Guðmundsdóttir voru á fundinum gerðar heiðursfélagar Kvenfélags Bústaðasóknar. Þær hafa báðar starfað í kvenfélaginu um áratuga skeið og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið, Laufey Erla starfaði m.a. sem formaður um árabil. 

Störf þeirra og framlag til félagsins hafa verið ómetanleg og hafa þær verið til fyrirmyndar í öllum sínum störfum. 

Selma Gísladóttir formaður Kvenfélags Bústaðasóknar afhenti þeim heiðursskjal af þessu tilefni.

Anna Sigríður Helgadóttir söng við undirleik Jónasar Þóris. Kvenfélagskonur sáu um árlegt jólahappdrætti og önnur atriði dagskrárinnar. Jólafundurinn var hátíðlegur, skemmtilegur og vel sóttur, eins og undanfarin ár. 

Kvenfélag Bústaðasóknar er sterkur bakjarl kirkjustarfsins í Bústaðakirkju. Kvenfélagskonurnar leggja starfinu lið á margvíslegan máta, til dæmis annast þær um fermingarkirtlana og aðstoða við framkvæmd ferminganna í Bústaðakirkju. Þá hefur Kvenfélagið veitt fjárstuðning til þurfandi í kringum aðventu og jól. Einnig hafa þær komið að ýmsum framkvæmdum bæði í kirkju og safnaðarheimili og þannig stutt starfið og rekstur safnaðarins með mjög áþreifanlegum hætti. 

Félagskonur kvenfélagsins leggja því samfélaginu mjög gott til og er kirkjustarfið í Bústaðakirkju ríkara í öllum skilningi þess orðs vegna hins mikilvæga starfs Kvenfélags Bústaðasóknar. 

Laufeyju Erlu og Halldóru eru þökkuð þeirra dýrmætu störf og þjónusta fyrir Kvenfélagið og Bústaðasókn í gegnum áratugina og þeim óskað til hamingju með heiðursnafnbótina.