16
2026 January

Vettvangur til að ræða um trú og kirkju

Alfa námskeið verður haldið í Bústaðakirkju á fimmtudögum frá 29. janúar nk. kl. 18:30. 

Á Alfa er á einfaldan og þægilegan máta fjallað um grundvallaratriði kristinnar trúar og boðskap Biblíunnar. Umgjörð Alfa er afslöppuð og þægileg. Ekki eru gerðar kröfur um trúarafstöðu né heimalærdóm eða aðrar skuldbindingar gerðar til þátttakenda. Öllum er frjálst að hafa sínar skoðanir og spyrja spurninga. Alfa er 10 vikna námskeið um kristna trú. Leitast er við að svara mikilvægustu spurningum lífsins, spurningum sem allir spyrja sig einhvern tímann á lífsleiðinni. Til dæmis: Er Guð til? Hver er tilgangur lífsins? Er kristin trú úrelt og óviðeigandi? 

Hver samvera hefst á léttum málsverði. Síðan er horft á 20-30 mín myndband um afmarkað efni í kristinni trú og eftir stutt hlé er boðið upp á umræður í hópum. 

Alfa styðst við bók Nicky Gumbel: Spurningar lífsins (e. Questions of Life). Alfa hefur verið haldið í fjölmörgum krikjum á Íslandi síðan árið 1997. Alfa námskeiðin eiga uppruna sinn í Holy Trinity Brompton kirkjunni í London. Þau hafa verið haldin út um allan heim, enda eitt vinsælasta og áhrifamesta námskeið sinnar tegundar í heiminum. 

Alfa námskeiðið hófst á Englandi fyrir u.þ.b. 30 árum. Námskeiðið er haldið í um 130 löndum í flestum kirkjudeildum. 

Fyrir hverja er Alfa?

Alfa er opið öllum sem ... 

  • vilja leita svara við spurningum lífsins.
  • vilja kynna sér grundvallaratriði kristinnar trúar.
  • vilja kanna hvaða gildi móta líf okkar og samfélag.
  • trúa, efast eða trúa ekki.

Um hvað er rætt á Alfa?

  • Hver er tilgangur lífsins?
  • Hver var og er Jesús Kristur?
  • Hvaða heimildir eru til um Krist, utan Biblíunnar?
  • Hvernig varð Biblían til?
  • Hvernig getum við lesið og skilið Biblíuna?
  • Hvernig og hvers vegna eigum við að biðja?
  • Hvernig leiðbeinir Guð okkur?
  • Hvernig getum við orðið viss í trúnni?
  • Hver er heilagur andi og hvað gerir hann?
  • Hvernig get ég best varið lífinu sem ég á eftir lifað?
  • Hvernig skilgreinir Biblían hið illa og hvernig getum við staðið gegn því afli?
  • Læknar Guð, nú á dögum?
  • Hvaða hlutverki gegnir kirkjan?
  • Hvað með eilífðina?

Vertu hjartanlega velkomin á Alfa námskeið í Bústaðakirkju. 

Tekið er á móti skráningum í síma 553-8500 og á netfangið thorvaldur@kirkja.is.