Saga Grensáskirkju

Saga Grensássafnaðar

Grensássókn var stofnuð í september 1963 og fyrsti sóknarpresturinn séra Felix Ólafsson var vígður til starfa í desember það sama ár. Fyrst í stað voru guðsþjónustur haldnar í Breiðagerðisskóla en síðar í safnaðarsal í Miðbæ við Háaleitisbraut.

Safnaðarheimili kirkjunnar var vígt 1972 og var notað sem kirkja safnaðarins allt fram til 1996, en 8. desember 1996 var kirkja safnaðarins vígð og tekin í notkun.

Kvenfélag Grensássóknar var starfrækt nær alla tíð frá stofnun sóknarinnar 1963 þar til á vordögum 2011 að samþykkt var að leggja félagið niður. Félagið tók mikinn þátt í uppbyggingu kirkjunnar og stóð að margvíslegum samverum.

Íbúar í Grensássókn voru í desember 2018, 6864 talsins.

Orgel safnaðarins

Orgel safnaðarins var vígt 23. október 1988. Orgelið er smíðað af dönsku orgelsmiðunum Bruno Christensen og Sønner. Fyrst um sinn var hljóðfærið í núverandi safnaðarheimili sem var nýtt sem kirkja safnaðarins. Við vígslu kirkjunnar 1996 var hljóðfærið flutt í kirkjuskipið og er þar nú.

Sambönd við frjáls félagasamtök

Söfnuðurinn hefur alla tíð verið í góðum tengslum við frjáls félagasamtök á vettvangi kristinnar boðunar. Þannig var sr. Felix Ólafsson um hríð kristniboði á vegum Sambands íslenskra kristniboðsfélaga. Séra Jónas Gíslason tók sem unglingur þátt í stofnun Kristilegra skólasamtaka og tók virkan þátt í starfi kristilegu skólahreyfingarinnar.

Sr. Halldór Gröndal sem var lengi sóknarprestur í Grensáskirkju studdi við og tók þátt í starfi Ungs fólks með hlutverk.

Þá var sr. Ólafur Jóhannsson um skeið formaður Prestafélags Íslands og Sambands íslenskra kristniboðsfélaga, samhliða sóknarprestsstörfum sínum.

Safnaðarstarf

Margvíslegt safnaðarstarf er í Grensáskirkju. Má þar nefna barna- og unglingastarf, 12 spora starf og fjölbreytt helgihald. Kirkjukór Grensáskirkju og kórar frá söngskólanum Domus Vox eru þátttakendur í safnaðarstarfinu.

Glerlist Grensáskirkju

Loft kirkjuskipsins táknar biðjandi hendur. Allir gluggar kirkjunnar eru eftir Leif Breiðfjörð.

Glugginn aftan altarið

Á 14 metra háum glugga úr gleri aftan við altarið eru 14 tákn. Táknin talin neðanfrá:

Fiskur: Elsta tákn kirkjunnar. Fiskurinn var leynitákn hjá lærisveinunum. Orðið fiskur á grísku felur í sér upphafsstafina í Jesús Kristur guðssonur og frelsari.

Krossinn.

Orð Krists: Heilög ritning.

Þyrnikórónan: Krossfestingin.

Berjaklassi: Blóð Krists. Tákn heilagrar kvöldmáltíðar.

Fangamark Krists: X og P, eða K og R í okkar stafrófi.

Tréð: Tákn eilífs lífs, tákn upprisu lífsins í Guði.

Auga: Tákn alsjáandi auga Guðs.

Heilög þrenning: Faðir, sonur og heilagur andi.

Alpha og Omega: Upphaf og endir.

Sólin: Sköpunin.

Kórónan: Paradís og eilíft líf.

Dúfan: Heilagur andi.

Þegar komið er inn í kirkjuna á ganginu eru gluggarnir sjö. Gluggarnir eru nendir "sköpunin." Á fyrsta glugganum stendur "verði ljós og það varð ljós."

Á sjöunda glugganum stendur "það er fullkomnað."

 

Þegar gengið er út úr kirkjuskipinu blasir við gluggi með sjö dúfum, sjö andans gjafir: Kærleikur, gleði, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.

Hringurinn er tákn eilífðar.