Byggingarsaga Bústaðakirkju
"Fyrsta sunnudag í aðventu 1971 var Bústaðakirkja vígð. Hér er úrdráttur úr byggingarsögu kirkjunnar eins og hún var við vígsluna.
Sóknarnefnd Bústaðasóknar ákvað 1964 að byggja kirkju og safnaðarheimili svo fljótt sem við yrði komið. Fengin var lóð úr landi Áshóls, norðan Bústaðavegar og austan Tunguvegar. Lóðin liggur í fallegri brekku mót suðri, niður Fossvogsdal. Leitað var til Teiknistofu húsameistara ríkisins, sem fól verkið þáverandi starfsmanni sínum, arkitektinum Helga Hjálmarssyni. Var fyrsta skóflustungan tekin af sóknarprestinum, séra Ólafi Skúlasyni við hátíðlega athöfn 7. maí 1966.
Síðan hefur á hverju ári verið unnið í áföngum, eftir því sem mögulegt hefur verið vegna fjármagns. Strax í upphafi var sóknarnefnd einhuga um að steypa upp og ganga frá allri byggingunni að utan. Árið 1969 var síðan ákveðið að ljúka sem fyrsta áfanga kirkjuskipi, forkirkju, andyri og snyrtiherbergjum ásamt safnaðarsal og kirkjuvarðarherbergi. Myndast hér einnig bráðabirgðaaðstaða fyrir prest safnaðarins.
Þetta var mikil höfuðnauðsyn, þar sem sóknin hafði þrefaldast að stærð, og aðstaða prestsins mjög erfið við að halda uppi eðlilegu safnaðarstarfi og kirkjulífi. Gólfflötur neðri hæðar er um 640 ferm. Hæðin með sönglofti um 1.040 ferm. Mest lofthæð er 12,5 m., en í kirkjuskipi miðju 9 metrar. Teknir verða í notkun nú í vetur 500 ferm. eða 2.600 rúmmetrar, en byggingin öll er 6.200 rúmmetrar. Byggingarnefnd skipa nú Ottó A. Michelsen, formaður, og séra Ólafur Skúlason sóknarprestur sem hafa verið frá upphafi og Sveinn Guðmundsson húsgagnameistari.
Öllum þeim sem gert hafa það mögulegt að reisa slíka kirkju ber að þakka.
Gjafirnar eru margar og miklar, og gefendur eru fjölmargir.
Sé þeim öllum endurgoldið í þeim anda, sem heitið er."
Glerlist Bústaðakirkju
Sú einfalda blanda af sílikatsöltum og alkalíefnum sem við nefnum gler hefur fylgt manninum frá upphafi siðmenningar. Gler hefur verið notað til skrauts og hverdagsbrúks, sem tákn hinnar tæru fullkomnunnar og andstæðar eigindir þess, harka og gegnsæi, hafa öldum saman heillað helstu skáld og spekinga. Þjóðsögur og ævintýri eru uppfull af tilvísunum í gler: Glerkastala og fleira.
Saga íslenskarar glermyndlistar er í raun fljótsögð. Ekkert bendir til þess að íslendingar hafi skapað nokkurn hlut úr gleri fyrr en á þessari öld. Gler hefur hins vegar verið flutt til landsins og notað í kirkjum og hugsanlega einnig í híbýlum höfðingja.
Leifur Breiðfjörð er fyrsti íslenski myndlistarmaðurinn til að helga sig glermyndlistinni, en hann kemur ekki að henni úr öðrum listgreinum. Hann setti á stofn fyrsta hérlenda verkstæðið fyrir steint gler. Þótt Leifur sé enn ungur að árum má segja að hann hafi þegar skapað hefð í íslenskri glermyndalist. Glermyndir hans prýða á annan tug íslenskra kirkna og opinberra bygginga, að ónefndum glermyndum í erlendum kirkjum og stofnunum.
Í sýningarskrá árið 1984 skrifar Leifur svo: "Frjáls myndsköpun hefur verið mikilvægur hluti starfs míns. Góð teiknikunnátta og leikni í meðferð lita álít ég að sé frumskilyrði fyrir gerð góðra glerverka. Áhuga og skilning á öðrum listgreinum tel ég einnig mikilvægan. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að skoða söfn og sýningar til þess að víkka sjóndeildarhringinn og örva ímyndunaraflið. Ég verð ekki einungis fyrir áhrifum af góðum steindum gluggum, heldur einnig af allri góðri list."
Margt er það sem varð til þess að glæða listáhuga Leifs og virðingu fyrir listum yfirleitt. Hann er alinn upp af umburðarlyndum foreldrum á menningarheimili þar sem myndlist, bókmenntir og tónlist voru í öndvegi, hneigðist hann snemma til teikningar, málunar og myndmótunar og þótti bera af öðrum listnemum fyrir leikni og fjölhæfni strax á öðru ári við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Leifur kemur að glerlistinni með allnokkurt veganesti, nefnilega fyrrnefndar teiknigáfur, myndlistarlegt umburðarlyndi og rómantíska skaphöfn, og öðlast skjótt innsýn í lífrænan spuna nýrómantíkera.
Glerlistin sjálf yddar formskyn Leifs, gerir hann færan um að sníða hugmyndir sínar jafnt að gluggaboru á einkaheimili sem viðhafnargluggum í dómkirkju og ræktar með honum þá sérstöku nærgætni gagnvart litunum sem sérhver glerlistamaður verður að temja sér. Á ferli sínum sem kirkjulistamaður hefur Leifur Breiðfjörð lagt höfuðáherslu á listrænt gildi steindra glugga sinna og heildarsamræmið á hverjum stað.
Þegar kom að því að gera gluggana fyrir Bústaðakirkju, stóð Leifur frammi fyrir því að búa til glugga og mótíf sem ekki yrðu undir í samkeppni við þunga og ábúðarmikla steypu kirkjubyggingarinnar. Þar á ofan voru umræddir gluggar háir og mjóir ljósgjafar sem ekki mátti byrgja nema að litlu leyti. Leifur leysti þennan vanda með því að nota að mestu tært gler og ópalgler, sem miðluðu nægri birtu inn í rýmið. Til að íþyngja ekki gluggunum um of formrænt séð, brá listamaðurinn sömuleiðis á það ráð að hengja sjálft frumlag verksins, fíngert krossmark, fyrir framan gluggana og dreifa síðan smágerðum endurtekningum þess þannig að þær stefna að hengikrossinum miðjum.
Verk þetta er í heild abstrakt verk unnið með texta úr Opinberunarbók Jóhannesar í huga. Þó má geta þess að allar meginlínur verksins liggja í átt að miðju krossins sem hangir fyrir ofan altarið.