Barnamessur eru í Bústaðakirkju alla sunnudaga yfir vetrartímann klukkan 11:00. Þar er komið saman sungið og leikið og eru foreldrar hvattir til þátttöku. Umsjón með barnamessum hafa Daníel Ágúst Gautason æskulýðsprestur, leiðtogar og Jónas Þórir ásamt prestum prestakallsins.

Barnamessurnar eru samstarfsverkefni með Bústaða- og Grensássókn, sem eru í Fossvogsprestakalli. Þar er leikið og sungið af gleði. Börnin læra hinar ýmsu bænir og biblíusögur sem miðla góðum boðskap og býr til gott veganesti út í lífið. Við lærum um gildi vináttunnar og þess að vera góð hvort við annað. Brúður, teiknimyndir, leikir, söngvar og sálmar, litamyndir, bænir og fleira gera þetta að dýrmætri stund fyrir alla fjölskylduna.

 

Börnin læra morgunversin, sem farið er með í upphafi hverrar samveru: 

 

Vertu, Guð faðir, faðir minn 

í frelsarans Jesú nafni, 

hönd þín leiði mig út og inn 

svo allri synd ég hafni. 

 

Nú er ég klæddur og kominn á ról, 

Kristur Jesús veri mitt skjól, 

í guðsóttanum gefðu mér 

að ganga í dag svo líki þér. 

 

Söngurinn er tjáning lofgjörðar og þakklætis, jafnframt því að geta verið bænin okkar.
Bænin er einlægt samtal okkar við Guð. Hún er samtal tveggja vina, sem vilja rækta samband sitt.

Guð hefur gefið okkur lífið og víkur aldrei af vegi vináttunnar. Við erum reikul á þeim vegi en viljum reyna og viljum leggja okkur fram.