Starfið í Grensáskirkju er fjölbreytt
Í Grensáskirkju fer fram fjölbreytt kirkjustarf. Kyrrðarstundir eru í hádeginu alla þriðjudaga, þar sem Ásta Haraldsdóttir kantór kirkjunnar leikur ljúfa tóna og prestarnir leiða stundina. Streymt er frá kyrrðarstundunum á Facebook síðu Grensáskirkju. Á fimmtudögum fara fram núvitundarstundir, sem einnig er streymt frá á síðum kirkjunnar. Þær stundir eru í aðdraganda hópastarfs Vina í bata, sem eru starfandi á fimmtudagskvöldum.
Á fimmtudögum í haust fór fram kirkjuprakkarastarf, þar sem börn á aldrinum 6-9 ára tóku þátt í sjö samverum, í sjötíu mínútur í senn, sjö vikur í röð. Að líkindum verður boðið upp á það verkefni aftur í janúar á nýju ári. Æskulýðsfélagið Poný, sem er æskulýðsstarf fyrir krakka í 8.-10. bekk, fer fram á fimmtudagskvöldum. Svo kemur góður hópur saman á fimmtudagsmorgnum til prjónakaffis í safnaðarheimili Grensáskirkju.
Fermingarstörfin hafa gengið vel í haust og eru krakkarnir áhugasöm. Í síðustu viku tóku mörg þeirra þátt í árlegri fermingarbarnasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar fyrir vatnsbrunnum í Afríku.
Fjölmargt fleira fer fram í Grensáskirkju, en höfuðstöðvar Hjálparstarfs kirkjunnar eru á fyrstu hæðinni.
Kirkjustarf fatlaðra
Kirkjustarf fatlaðra fer fram í Grensáskirkju. Daníel Ágúst Gautason, djákni, hefur veg og vanda af starfinu þetta árið, þar sem hann er nú að leysa af séra Guðnýju Hallgrímsdóttur, sem er í leyfi.
Ýmislegt er brallað í kirkjustarfi fatlaðra, glatt á hjalla og veitingar í boði.
Helgihald í kirkjunni
Helgihald er fastur liður í dagskrá hópsins í kirkjustarfi fatlaðra í Grensáskirkju. Þá er farið inn í kirkjuna, sálmar sungnir, kveikt á kertum og bænir beðnar.
Bjarni Harðarson með bókamessu
Laugardaginn 5. nóvember sl. fór fram bókamessa í safnaðarheimili Grensáskirkju. Bjarni Harðarson sem rekur Bókakaffið á Selfossi og bókaútgáfuna Sæmund, ásamt konu sinni Elínu Gunnlaugsdóttur, efndu til þeirrar samkomu í safnaðarheimilinu. Ingi Tandri Traustason annaðist um framkvæmdina með þeim hjónum.
Fjölmargir bókatitlar
Fjölmargir bókatitlar voru á boðstólnum í bókamessunni. Jafnframt fór fram bókauppboð og kynning á nýútkomnum bókum, en bókaútgáfan Sæmundur er afkastamikil á því sviði og áhugaverðir titlar þar í boði.
Vettvangur litríks samfélag og þjónustu
Grensáskirkja er vettvangur fjölbreytts starfs, litríkrar þjónustu og samfélags. Vertu velkomin til þátttöku.