Hver ertu?

Í messunni kl. 11 í Grensáskirkju sunnudaginn 9. júlí prédikar guðfræðineminn Steinunn Anna Baldvinsdóttir. Hún er á lokastigum námsins og fylgir sr. Maríu í sumar til að fá innsýn í ýmsar hliðar prestsþjónustunnar. Eitt af verkefnum hennar er að flytja prédikun í messu og við fáum að heyra afraksturinn af undirbúningi hennar á sunnudaginn. Spurningin hér að ofan, Hver ertu? kemur fyrir í ritningarlestrum dagsins. 

Sr. María G. Ágústsdóttir þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum, Ásta Haraldsdóttir leikur með í söngnum sem Kirkjukór Grensáskirkju leiðir. Heitt á könnunni og kökubiti eftir messu. Þetta er síðasta messa fyrir sumarlokun Grensáskirkju sem stendur fram yfir verslunarmannahelgi. 

Steinunn Anna er alin upp í Seljahverfi og fór ung að taka þátt í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar sinnar. Rúmlega tvítug tók hún að sér kirkjuvörslu fyrir söfnuðinn og hefur nú í níu ár verið kirkjuvörður í Seljakirkju. Hún hefur því mikla reynslu af starfi kirkjunnar. 

Myndin af þeim sr. Maríu er tekin eftir viðburðaríkan dag um síðustu helgi þegar Steinunn tók þátt í þjónustunni við tvær skírnir og eitt brúðkaup þar sem hún flutti stutt ávarp. Hún er líka búin að semja minningarorð í samráði við aðstandendur hins látna og nú er komið að prédikun í Grensáskirkju og hugleiðingu í Bústaðakirkju.