Sr. Eva Björk verður biskupsritari, sr. Sigríður Kristín kemur til starfa

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Fossvogsprestakalli, hefur verið kölluð til starfa sem biskupsritari til eins árs. Við samgleðjumst henni og óskum henni og nýkjörnum biskupi Íslands, sr. Guðrúnu Karls Helgudóttur, velfarnaðar og blessunar á nýjum starfsvettvangi. 

Í stað sr. Evu Bjarkar verður sr. Sigríður Kristín Helgadóttir sett til árs þjónustu í Fossvogsprestakalli. Hún kemur til starfa 10. ágúst næstkomandi og fyrstu messurnar hennar verða sunnudaginn 18. ágúst. Sr. Sigríður hefur verið sóknarprestur í Breiðabólstaðarprestakalli frá haustinu 2020 en var í 19 ár prestur Fríkirkjunnar í Hafnarfirði. 

Við bjóðum sr. Sigríði innilega velkomna til okkar í Fossvogsprestakall. 

Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir er fædd í Reykjavík árið 1971, dóttir Ingibjargar Elísabetar Jóhannesdóttur, húsmóður, og Helga Sigurðssonar, sjómanns. Hún ólst upp í Hafnarfirði og lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1991. Eiginmaður Sigríðar er Eyjólfur Einar Elíasson, forstöðumaður hjá Reykjavíkurborg, og eiga þau fjórar dætur, fæddar 1991, 1995, 1999 og 2000. 

Árið 2000 lauk Sigríður embættisprófi frá guðfræðideild HÍ og vígðist sama ár til Fríkirkjunnar í Hafnarfirði þar sem hún þjónaði næstu 19 árin. Hún starfaði einnig sem heimilisprestur á Hrafnistu í Hafnarfirði. Sigríður lagði stund á söngnám við Tónlistarskóla Kópavogs og lauk prófi í Fjölskyldufræðum frá Endurmenntun HÍ árið 2011. Hún hefur komið að starfi Sorgarmiðstöðvari í Lífsgæðasetri St. Jósefsspítala og heimsótt skóla í Hafnarfirði til að fræða um sorg og sorgarviðbrögð. Hún átti einnig sæti í áfallaráði Hafnarfjarðarbæjar. Sr. Sigríður hefur komið að starfi Lútherskrar hjónahelgi á Íslandi og verið forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar.