Hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir
Verið velkomin í messu kl. 11. Ásta Haraldsdóttir organisti leiðir tónlistina auk félögum úr kirkjukór Grensáskirkju. Óskar Bjartmaarsson syngur einsöng. Sr. Danni prédikar og þjónar ásamt messuhópi.
Boðið er upp á kaffi eftir messu.
Fyrri ritningarlestur dagsins er úr Prédikaranum 1.1-10:
Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.
Aumasti hégómi, segir prédikarinn,
aumasti hégómi, allt er hégómi.
Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu
sem hann streitist við undir sólinni?
Ein kynslóð fer, önnur kemur
en jörðin stendur að eilífu.
Og sólin rennur upp og sólin gengur undir
og hraðar sér aftur til samastaðar síns
þar sem hún rennur upp.
Vindurinn gengur til suðurs
og snýr sér til norðurs,
hann snýr sér og snýr sér
og hringsnýst á nýjan leik.
Allar ár renna í sjóinn
en sjórinn fyllist ekki.
Þangað sem árnar renna
munu þær ávallt renna.
Allt er sístritandi,
enginn maður fær því með orðum lýst,
augað verður aldrei satt af að sjá
og eyrað verður aldrei mett af að heyra.
Það sem hefur verið mun verða
og það sem gerst hefur mun enn gerast
og ekkert er nýtt undir sólinni.
Sé nokkuð til er um verði sagt:
Þetta er nýtt,
þá hefur það orðið fyrir löngu,
fyrir okkar tíma.
Seinni ritningarlestur dagsins er úr Filippíbréfinu 3.7-14:
En það sem var mér ávinningur met ég nú vera tjón sakir Krists. Já, meira að segja met ég allt
vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt
og met það sem sorp til þess að ég geti áunnið Krist og reynst vera í honum, ekki sakir eigin
réttlætis, sem fæst af hlýðni við lögmálið, heldur sakir þess sem trúin á Krist gefur, réttlætið
frá Guði með trúnni. – Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans, ég vil þjást með honum og
líkjast honum í dauða hans. Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. Ekki er svo
að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því ef ég skyldi geta
höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú. Systkin, ekki tel ég sjálfan mig enn
hafa höndlað það. En eitt geri ég. Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram
undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi
kallað okkur til.
Guðspjall dagsins er úr Matteusarguðspjalli 19.27-30:
Þá sagði Pétur við hann: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“
Jesús sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur: Þegar Guð hefur endurnýjað allt og
Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf
hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða
systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og
öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“