Karlakór á Kristniboðsdaginn í Grensáskirkju

Guðlaugur Gunnarsson, kristniboði, prédikar í Grensáskirkju kl. 11 sunnudaginn 13. nóvember í tilefni Kristniboðsdagsins. Guðlaugur er félagi í Karlakór KFUM sem kemur og syngur fyrir okkur undir stjórn Ástu Haraldsdóttur, kantors Grensáskirkju. Bjarni Gunnarsson leikur með á píanó. Sr. María þjónar ásamt messuhópi. Hressing eftir messu.

Samskot verða tekin í þágu starfa Kristniboðssambandsins hér heima og erlendis, sjá Vefsíða Kristniboðssambandsins – Í trú, von og kærleika (sik.is)

Guðlaugur Gunnarsson kristniboði

Guðlaugur Gunnarsson er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Eftir guðfræðinám við Háskóla Íslands hélt hann ásamt fjölskyldu sinni til Eþíóþíu til starfa á vegum Sambands íslenskra kristniboðsfélaga árið 1983. Fyrsta árið var hann við málanám í Addis Ababa en starfaði síðan á ýmsum stöðum og við fjölbreytilegar aðstæður í suðurhluta landsins. Guðlaugur talar reiprennandi Amharísku, sem er ríkismál Eþíópíu, og þekkir afar vel til siða og menningar hinna ýmsu þjóðflokka. Hann starfar sem kerfisfræðingur en hefur farið sem fararstjóri til Eþíópíu og sinnir ýmiskonar sjálfboðaliðastörfum í þágu kristniboðs og kirkju.