Aðventuhátíð Grensássafnaðar á öðrum sunnudegi í aðventu þann 10. desember kl. 17

Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flytur hátíðarræðu á aðventuhátíð Grensássafnaðar sem á þessu hausti fagnar 60 ára afmæli. Grensássókn var stofnuð haustið 1963 og var fyrsti prestur safnaðarins sr. Felix Ólafsson. Safnaðarheimilið, sem notað var sem kirkja í 24 ár, var vígt árið 1972 en kirkjan var vígð við hátíðlega athöfn á öðrum sunnudegi í aðventu, þann 8. desember 1996. 

Aðventuhátíð safnaðarins er því haldin annan sunnudag í aðventu, sem að þessu sinni ber upp á 10. desember. Hátíðin hefst kl. 17 með ljósaleik sem fermingarhópur vorsins 2024 flytur. Kirkjukór Grensáskirkju leiðir almennan söng ásamt Ástu Haraldsdóttur, kantor. Þau flytja einnig nokkur falleg lög. Biskupsdóttirin Margrét Hannesdóttir syngur einsöng og fögnum við því að fá þær mæðgur báðar til okkar á hátíðina. 

Prestar Fossvogsprestakalls, þau sr. Daníel Ágúst Gautason, sr. María G. Ágústsdóttir og sr. Þorvaldur Víðisson leiða athöfnina ásamt Erik Pálssyni, sóknarnefndarformanni. Eftir stundina í kirkjunni býður sóknarnefnd Grensássóknar upp á smákökur og annað góðgæti í forsal kirkjunnar. 

Við erum öll velkomin á þessa notalegu og hátíðlegu stund í aðdraganda jóla.