22
2024 December

Hjálparstarf kirkjunnar í fararbroddi

Vinir Hjálparstarfs kirkjunnar koma saman á ný í safnaðarheimili Grensáskirkju mánudaginn 30. janúar kl. 12:00 og snæða saman. Þetta er í þriðja sinn sem hópurinn kemur saman en öll sem áhuga hafa á starfi Hjálparstarfs kirkjunnar og vilja leggja starfinu lið eru hjartanlega velkomin.

Tilkynna þarf þátttöku á netfangið help@help.is eða í síma 528 4400 fyrir kl. 9:00 fimmtudaginn 26. janúar. Verð fyrir máltíðina er 2.000 kr. og mun afraksturinn renna til Hjálparstarfs kirkjunnar. Í eldhúsinu verða sem fyrr þau Bent Pedersen og Kolbrún Guðjónsdóttir, sem annast um eldamennskuna í sjálfboðaliðavinnu.

Yfir hádegisverðinum mun Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, segja frá nýju þróunarsamvinnuverkefni Hjálparstarfsins í Malaví en þegar hópurinn snæðir saman verður hann nýkominn heim úr vinnuferð til landsins. Þess má geta að á árunum 2005 til 2014 studdi Hjálparstarfið verkefni Evangelical Lutheran Development Service (ELDS) í Malaví sem snéri m.a. að vatnsöflun og betra lífsviðurværi fyrir um 900 fjölskyldur sjálfsþurftarbænda í 37 þorpum í Chikwawa héraði.

Hugmyndin að baki samverunum er að fólk geti hist stutt í hádeginu, borðað saman og rætt málefni Hjálparstarfsins og hvernig hver og einn og hópurinn í heild sinni geti stutt við starfið. Hugmyndin kviknaði hjá séra Bjarna Þór Bjarnasyni og með honum í undirbúningshópnum eru Halldór Kristinn Pedersen og Erik Pálsson, auk starfsfólks Hjálparstarfs kirkjunnar og presta og starfsfólks Grensáskirkju.

Öll sem hafa áhuga á starfi Hjálparstarfs kirkjunnar og vilja leggja starfinu lið eru hjartanlega velkomin.