02
2024 December

Útskrift úr Leiðtogaskólanum fór fram í Grensáskirkju

Sunnudaginn 21. maí var útskrift úr Leiðtogaskóla Þjóðkirkjunnar í Grensáskirkju, en útskriftin fór fram í messunni klukkan 11. 

Frú Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands afhenti þeim Karólínu Karlsdóttur og Iðunni Helgu Zimsen útskriftarskjal úr Leiðtogaskólanum.

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir þjónaði fyrir altari en hún hefur jafnframt annast um kennslu og fræðslu á vettvangi Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar.

Að sögn Önnu Elísabetar Gestsdóttur djákna og svæðisstjóra æskulýðsmála Kjalarness- og Reykjavíkurprófastdæma var „þetta yndisleg stund í Grensáskirkju“. Margir voru viðstaddir og tóku þátt, fjölskyldur, vinir, messuþjónar, kirkjukór, kirkjugestir og starfsfólk. 

Anna Elísabet sagði jafnframt frá því að ein móðirin hefði sagt orðrétt varðandi leiðtogafræðsluna sem fram fór í vetur:

"Takk fyrir að hjálpa okkur við uppeldi dóttur okkar!"

Leiðtogaefnin, þær Karólína og Iðunn Helga, sem kláruðu að þessu sinni, voru bæði glaðar og þakklátar og fannst fræðslan hafa verið gagnleg og góður undirbúningur undir starf sem leiðtogi.  

Í guðþjónustunni var samtalspredikun þar sem leiðtogaefnin voru búin að undirbúa sig með spurningar um það hvernig þær sjá fyrir sér að vinna í barna- og æskulýðsstarfinu.

Það kom fram að mikilvægt sé að syngja saman, vera með uppbyggjandi leiki, setja dæmisögur Jesú í leikrænt form og koma fram við börnin af virðingu og hlýju þannig að öllum líði vel í kirkjunni.

Systir Iðunnar Helgu, Gréta Petrína söng með henni í guðsþjónustunni, en til gamans má geta þess að Iðunn Helga var að útskrifast úr leiðtogaþjálfuninni og Gréta Petrína er í leiðtogaþjálfun. 

Leiðtogaefnin fengu útskriftarskjal í ramma þar sem fræðslan var dregin saman í orð og myndir.

Þær fengu bókina um Jesú að gjöf þar sem þær hafa möguleika á því að fræðast enn meira um Jesú, umhverfi og menningu þess tíma er hann var uppi.

Síðan fengu þær fjársjóðsöskju til að geta ræktað trúna inn í hið daglega líf og einnig segul til að setja á ískápinn með upplýsingum um Verndum bernskuna. 

Eftir guðþjónustuna var messukaffi og fólk gaf sér góðan tíma til að spjalla og gæða sér á góðum veitingum.

Að lokum sagði Anna Elísabet: „Það voru mörg brosandi andlit í Grensáskirkju á sunnudaginn.“

Á myndinni eru leiðtogaefnin, ásamt frú Agnesi M. Sigurðardóttur biskupi Íslands, Önnu Elísabetu Gestsdóttur svæðisstjóra og séra Evu Björk Valdimarsdóttur presti í Grensáskirkju og Bústaðakirkju, Fossvogsprestakalli. 

 

Nýtt skipulag æskulýðsmálanna

Anna Elísabet Gestsdóttir er nýráðin svæðisstjóri æskulýðsmála í prófastsdæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu. Áður höfðu Reykjavíkurprófastsdæmin tvö unnið sameiginlega að æskulýðsmálunum, en nú hefur Kjalarnesssprófastsdæmi bæst í þann hóp. Jafnframt styður nú Biskupsstofa starfið beint, með því að launa svæðisstjórann, líkt og gert er á öðrum slíkum svæðum um land allt. Þessi nýbreytni var samþykkt á kirkjuþingi og verður að líkindum til að styrkja og efla æskulýðsstarf kirkjunnar í landinu. 

Við fögnum nýjum svæðisstjóra æskulýðsmála á höfuðborgarsvæðinu og biðjum henni blessunar í hennar mikilvægu störfum.