22
2024 October

Séra Sigríður Kristín Helgadóttir leiddi fræðsluna

Fræðslukvöld var haldið með fermingarbörnum og foreldrum/forráðamönnum þeirra fimmtudaginn 17. október sl. 

Séra Sigríður Kristín Helgadóttir fjallaði um sorg, áföll og viðbrögð við missi. Jónas Þórir sat við flygilinn og voru nokkrir sálmar sungnir sem tengjast umfjöllunarefninu. 

Um sorg og áföll er mikilvægt að ræða, einnig við unga fólkið og dýrmætt var að sjá hve foreldrar og aðstandendur þeirra fylgdu krökkunum vel eftir. 

Sorgarmiðstöðin er góður vettvangur til að nálgast stuðning og fræðslu þegar sorgin sækir okkur heim, eins Píeta samtökin og fleiri mikilvæg samtök í okkar samfélagi. Prestarnir í Fossvogsprestakalli eru einnig til þjónustu reiðubúnir og ávallt er mögulegt að koma og tala, biðja, spegla hugsanir og tilfinningar, til að geta betur fótað sig áfram lífsveginn. 

Við þökkum fermingarbörnunum, foreldrum þeirra og forráðamönnum góða samveru og þátttöku í fræðslukvöldinu.