14
2024 April

Fermingar í Fossvogsprestakalli gengu vel

Fermingar í Fossvogsprestakalli eru nú afstaðnar og gengu vel. Rúmlega 100 börn fermdust í kirkjunum tveimur, Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Löng hefð er fyrir fermingardögum í prestakallinu þar sem fermt er í báðum kirkjum á Pálmasunnudag og á annan í páskum. Síðan er fermt í Bústaðakirkju á sunnudeginum fyrir páska og í Grensáskirkju á sunnudeginum eftir páska. Samtals voru átta fermingarathafnir í prestakallinum á þessu vori. 

Við þökkum fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra samveruna í vetur og óskum þeim innilega til hamingju með ferminguna, og biðjum þeim blessunar og gæfu til framtíðar. 

 

Þátttaka í páskahelgihaldinu svipuð og undanfarin ár

Helgihaldið um dymbilviku og páska er fjölbreytt af efni og innihaldi. Helgihaldið miðlar atburðum pálmasunnudags, skírdags, föstudagsins langa og páskadagsmorguns.

Á pálmasunnudegi segir frá innreið Jesú í Jerúsalem, þar sem honum er fangað eins og rokkstjörnu. Sálmar helgihaldsins og textar allir taka mið af því.

Atburðir skírdagskvölds er Jesús neytir síðustu kvöldmáltíðar með lærisveinum sínum og hreinsar fætur þeirra, eru síðan rammi helgihaldsins á skírdagskvöldi. Jesús gefur okkur þar eftirdæmi mildi og þjónustu. Í helgihaldi skírdagskvölds er allir munir á altari kirknanna fjarlægðir og rauðar rósir settar á altarið í þeirra stað. Helgihaldinu lýkur gjarnan á þeirri hreinsun altarisins og því að 5 rauðar rósir eru lagðar á altarið, til minningar um sár Krists á krossinum, sem voru 5. Stundum fá kirkjugestir að taka þátt í því að fjarlægja kertastjaka, Biblíu, blómavasa og annað sem á altarinu er. Slík þátttaka getur verið mjög áhrifarík og mikil reynsla. 

Á föstudeginum langa er minnst aftöku Jesú Krists á Golgata. Jesús var þar saklaus krossfestur. Helgihaldið á föstudaginn langa tekur mið af því, í söng, bæn og lestri, þar sem píslasagan er í forgrunni texta og tónlistar. 

Ævisögu Jesú lauk ekki á föstudeginum langa heldur segja ritningarnar frá upprisu hans frá dauðum. Um það snýst helgihald páskamorguns sem miðlar sigur lífsins, sigri mildi og kærleika. 

Það er líka einhvern vegin svo að heimurinn er ofinn úr slíkum vefnaði að dagrenning fylgir dimmri nótt. Huggun fylgir í kjölfar sorgar, líf sprettur úr dauðans dal. 

Þátttaka í helgihaldi dymbilviku og páska getur því veitt andlega uppbyggingu og verið vettvangur þar sem við ræktum trú, von og kærleika. 

Við þökkum öllum sem tóku þátt í helgihaldi dymbilviku og páska í Fossvogsprestakallinu, samveruna og biðjum ykkur öllum Guðs blessunar.

Sunnudagarnir sem nú taka við, eftir páska, eru kallaðir sunnudagar í páskatímanum.

Verið hjartanlega velkomin til þátttöku í helgihaldinu og starfi kirkjunnar í Fossvogsprestakalli.