17
2024 December

Séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson prédikaði

Fjölmenni var í Eyjamessu í Bústaðakirkju sunnudaginn 28. janúar sl. kl. 13. Séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson fv. sóknarprestur í Vestmannaeyjum og sjúkrahúsprestur prédikaði. 

Hér er hann með séra Helgu Soffíu Konráðsdóttur prófasti, sem las guðspjallið í helgihaldi dagsins. 

 

Eyjalögin voru sungin

Félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju sungu við undirleik Ástu Haraldsdóttur organista Grensáskirkju sem lék undir í fjarveru Jónasar Þóris organista Bústaðakirkju. Hér má sjá félagar úr Kammerkórnum, en þessa mynd tók Ingi Hrafn.

Tónlistin í messunni var rík af Eyjalögum, þar sem Rósalind Gísladóttir söng einsöng, sem og Dagur Sigurðsson og Þorsteinn Lýðsson. Rúnar Ingi Guðjónsson lék undir. Helgihaldið hófst á innspili Védísar Guðmundsdóttur sem lék á þverflautu með Ástu Haraldsdóttur sem lék á flygil.  

Skólamálin til umræðu í safnaðarheimilinu

Í goskaffinu að lokinni messu stýrði Guðrún Erlingsdóttir, formaður ÁtVR, áhugaverðu samtali við systkinin Hjálmfríði Sveinsdóttur, fv. skólastjóra í Eyjum og kennara Eyjabarna í Hveragerði í gosinu, og Þorgeir Sveinsson, sálfræðing, sem vann rannsókn á námsárangri Eyjabarna í tengslum við gosið. Þau ræddu um skólamál Eyjabarna í kjölfar gossins, sem myndaði sterk hugrenningartengsl við stöðu Grindvíkinga í dag. Elva Ósk Ólafsdóttir, leikkona og Eyjakona, las úr dagbók móður sinnar og sagði frá reynslu sinni og skólasókn í gosinu. Messukaffið var í boði Bústaðakirkju og ÁtVR. 

Fjölmenni í messu og goskaffi

Fjölmenni var í Eyjamessunni og goskaffinu. Gestir tóku einnig virkan þátt í pallborðinu þar sem fjallað var um skólamál Eyjabarna í kjölfar eldgossins á Heimaey árið 1973. 

Á sama tíma og hugur fólks hvarflaði aftur um hálfa öld, þar sem rætt var um reynslu Eyjamanna af hörmungum gossins á Heimaey, var hugur fólks hjá Grindvíkingum, sem búa þessa stundina við mikla óvissu og ógnir náttúrunnar, og hafa þurft að rýma bæinn sinn, þar sem algerlega óvíst er hvað framtíðin muni bera í skauti sér. 

Samstaðan með Grindvíkingum var nær áþreifanleg og pallborðið vitnisburður um mikilvægi þess að tala saman, deila reynslunni og læra hvert af öðru. 

Með kærum þökkum fyrir komuna í Bústaðakirkju

Við þökkum ykkur kærlega fyrir samveruna í Eyjamessunni og goskaffinu í Bústaðakirkju. Verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju.