09
2024 December

Bleikur október í Bústaðakirkju og Kvenfélag Bústaðasóknar

Í dag, föstudaginn 22. desember, afhentu fulltrúar Bústaðasafnaðar og Kvenfélags Bústaðasóknar Ljósinu, endurhæfingarmiðstöð, fjárstyrk að fjárhæð kr. 500.000.-  

Fulltrúar Bústaðakirkju og Kvenfélag Bústaðasóknar

Um er að ræða söfnunarfé er safnaðist á hádegistónleikum í Bleikum október í Bústaðakirkju, en þar söfnuðust kr. 400.000.- Aðgangur á alla tónleikana var ókeypis, en tónleikagestum gafst færi á að leggja Ljósinu lið með fjárframlagi. Eins gafst færi á að kaupa bleiku slaufuna.  

Hér á myndinni fyrir ofan má sjá séra Maríu G. Ágústsdóttur sóknarprest afhenda Guðbjörgu Dóru Tryggvadóttur skjal sem staðfestir ofangreint. Guðbjörg Dóra tók á móti hópnum í fjarveru Ernu Magnúsdóttur framkvæmdastýru Ljóssins. Með þeim á myndinni eru fulltrúar Bústaðakirkju og Kvenfélags Bústaðasóknar, séra Þorvaldur Víðisson, Guðlaugur Jensen Ágústsson, Hrefna Guðnadóttir formaður Kvenfélags Bústaðasóknar, Sigríður Ósk Pálmadóttir, Fróði Kristinn Þorvaldsson og Ásbjörn Björnsson, framkvæmdastjóri Bústaðakirkju og Grensáskirkju. 

Það voru hlýjar móttökur sem hópurinn fékk hjá starfsfólki Ljóssins. Við þökkum starfsfólki Ljóssins þeirra ómetanlega starf og biðjum þeim öllum og starfsemi Ljóssins blessunar til framtíðar.

Jónas Þórir annaðist um skipulagningu og framkvæmd Bleiks október

Jónas Þórir organisti Bústaðakirkju hafði veg og vanda að undirbúningi og framkvæmd tónleikanna, og dagskrár Bleiks október, eins og undanfarin ár. Hér má sjá þá Jónas Þóri og Valdimar á einum tónleikunum. Dagskráin var fjölbreytt og glæsileg, hún var eftirfarandi:

Dagskráin var eftirfarandi

Á fyrstu tónleikunum var ítalskur taktur þar sem Sigrún Hjálmtýsdóttir, Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Jónas Þórir léku ítalska tónlist. 

Á öðrum tónleikunum lék Svanur Vilbergsson spænska gítartónlist.

Á þriðju tónleikunum var komið að Valdimar og Jónasi Þóri, þar sem þeir fluttu lög Magga Eiríks. 

Á fjórðu og síðustu tónleikunum sungu félagar úr Kammerkór Bústaðakirkju Suður-Ameríska tónlist og tangótónlist, Anna Sigríður Helgadóttir sópran söng einsöng, Matthías Stefánsson lék á fiðlu. Stiginn var tangódans á tónleikunum af Bryndísi Halldórsdóttur og Hany Hadaya. 

Gleðileg jól

Viðtökur voru geysigóðar og reikna má með að um 1000 manns hafi sótt  þessa ferna hádegistónleika í Bústaðakirkju í október sl.

Við þökkum tónlistarfólkinu sitt mikilvæga og dýrmæta framlag. Eins þökkum við öllum tónleikagestum og kirkjugestum, sem tóku þátt og lögðu mikilvægu starfi Ljóssins lið. 

Gleðileg jól.