27
2024 November

Nýir sálmar og ný sálmabók

Margrét Bóasdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar flutti hádegiserindi í Bústaðakirkju sunnudaginn 2. október kl. 12:15. Þar kynnti hún útgáfu nýrrar sálmabókar íslensku þjóðkirkjunnar. Undirbúningur að útgáfu nýrrar sálmabókar hefur staðið í mörg ár, enda er verkið gríðarstórt og flókið. Eins og kom fram í máli söngmálastjórans er ný sálmabók komin úr prentun og er á leið til landsins. Ný sálmabók á eftir að vera kirkjustarfinu mikil lyftistöng á komandi árum, en þar má finna fjöldann allan af nýjum sálmum í bland við eldri sálma og mjög gamla sálma. Söngmálastjórinn kynnti innihald hinnar nýju sálmabókar og leiddi almennan safnaðarsöng þar sem sunginn var einn af hinum nýju sálmum við undirleik Jónasar Þóris, kantors Bústaðakirkju. 

Barnamessan vel sótt

Barnamessan var á sínum stað sunnudaginn 2. október kl. 11. Góð þátttaka hefur verið í barnamessunum á þessu hausti. Daníel Ágúst Gautason leiddi stundina ásamt Jónasi Þóri kantor, séra Þorvaldi og Iðunni leiðtoga. Barnasálmarnir voru sungnir, farið var í leiki og bænirnar beðnar. Börnin taka virkan þátt í barnamessunum í Bústaðakirkju, til dæmis með því að kveikja á kertum altarisins í upphafi stundarinnar. Boðið var upp á ávaxtastund, djús og kaffi í safnaðarheimilinu að lokinni barnamessu. Verið hjartanlega velkomin næsta sunnudag. 

Séra Kristján Valur Ingólfsson prédikaði

Séra Kristján Valur Ingólfsson fv. vígslubiskup í Skálholti prédikaði í guðsþjónustu dagsins klukkan 13. Guðspjallatexti dagsins úr Lúkasarguðspjalli fjallaði um ekkjuna í Naín. Séra Kristján Valur blessaði söfnuðinn í lok guðsþjónustunnar. 

Kammerkór Bústaðakirkju flutti marga nýja sálma í helgihaldi dagsins

Kammerkór Bústaðakirkju flutti marga nýja sálma í helgihaldi dagsins, sem munu prýða nýja sálmabók. Þar á meðal Ég heyri Jesú himneskt orð eftir Stefán Thorarensen við enskt þjóðlag, Guð sem skapað hefur eftir Trond Kverno og Gunnar Sandholt, Andi þinn er sem úðaregn, Farsi-lag við texta Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, Í orði Guðs eftir Sigurð Flosason og Aðalstein Ásberg Sigurðsson, Ég bið sú gæfa gefist mér eftir Daníel Þorsteinsson og Hjörleif Hjartarson og síðast en ekki síst Þung er mín sorg og sár eftir Hjördís Kristinsdóttur og Jónas Þóri, kantor Bústaðakirkju. Kammerkórinn mun ásamt Jónasi Þóri kantor leiða metnaðarfulla dagskrá í Bleikum október í Bústaðakirkju. 

Bleikur október í Bústaðakirkju

Bleikur október er hafinn í Bústaðakirkju. Framundan eru tónleikar hvern miðvikudag í hádeginu og svo mun dagskrá sunnudaganna taka mið af yfirskrift mánaðarins. Jónas Þórir kantor hefur veg og vanda að dagskránni og mun leiða hana ásamt öflugum Kammerkór Bústaðakirkju. Kynnið ykkur endilega dagskrána og verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju í október, sem endra nær. 

Staðsetning / Sókn