18
2024 July

Vorhátíð ÆSKH haldin á æskulýðsfundi í Grensáskirkju

Vorhátíð ÆSKH var haldin á æskulýðsfundi í Grensáskirkju síðastliðinn þriðjudag, 7. maí. Þar var boðið upp á hið klassíska sumargrill, þar sem pylsum var skellt á grillið. Eftir matinn var farið í skemmtilega útileikinn Capture the flag. Þó það hafði rignt mikið yfir daginn var prýðilegt veður þegar loksins var farið út um kvöldið. Túnin sitt hvorum megin við Grensáskirkju voru notuð sem keppnissvæðin og hentuðu vel fyrir það.

Æskulýðssamband kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu

ÆSKH er Æskulýðssamband kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu. Markmið sambandsins er að efla æskulýðsstarf í Kjós, á Kjalarnesi, í Mosfellsbæ, Reykjavík, Seltjarnarnesi, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og á Suðurnesjum. 

Þátttakan á vorhátíðinni var góð, en þau sem ferðuðust lengst til að mæta á svæðið komu alla leið frá Sandgerði.

Byrjað á helgistund

Í æskulýðsfélaginu Pony er yfirleitt endað á helgistund inni í kirkju, en öfugt var farið af á vorhátíðinni. 

Stundin byrjaði inni í kirkju þar sem að Bogi Benediktsson, æskulýðsfulltrúi í Lágafellskirkju, leiddi stundina og sönginn, ásamt sr. Sigurði Grétari Sigurðssyni, sóknarpresti í Útskálakirkju. Sungnir voru helstu slagararnir úr æskulýðsstarfi, eins og Lord I lift your name on high, Hallelúja og auðvitað Daginn í dag.

Steinunn Anna Baldvinsdóttir, æskulýðsfulltrúi í Seljakirkju, flutti hugvekju um fermingarversið sitt og Sólveig Franklínsdóttir, framkvæmdarstjóri ÆSKÞ, sagði frá Gleðigöngunni í ágúst.

Við þökkum ÆSKH og öllum sem að mættu kærlega fyrir heimsóknina og hlökkum til næsta æskulýðsviðburðar.