
Séra Laufey Brá og séra Sigríður Kristín
Séra Laufey Brá Jónsdóttir og séra Sigríður Kristín Helgadóttir hafa verið ráðnar til starfa í Fossvogsprestakalli.
Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir tveimur prestum til þjónustu í Fossvogsprestakalli. Það var gert í kjölfar þess að séra Eva Björk Valdimarsdóttir hóf störf sem biskupsritari og séra María Guðrúnar Ágústsdóttir hóf störf sem sóknarprestur í Reykholti. Sjö umsóknir bárust um stöðurnar tvær.
Valnefnd Fossvogsprestakalls annaðist um valferlið undir forystu séra Bryndísar Möllu Elídóttur prófasts í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.
Þá eru prestsstöðurnar þrjár við prestakallið fullmannaðar, en auk þeirra tveggja starfar þar fyrir séra Þorvaldur Víðisson.
Séra Sigríður Kristín hefur þegar hafið störf, þar sem hún hefur verið að leysa af við prestakallið, frá síðasta sumri. Séra Laufey Brá mun hefja störf þann 1. maí nk., en hún er nú starfandi sóknarprestur í Grundarfirði.
Nánari upplýsingar er hægt að lesa á heimasíðu þjóðkirkjunnar, sjá hér.
Við fögnum ráðningu séra Sigríðar Kristínar og séra Laufeyjar Brár og bjóðum þær hjartanlega velkomnar til starfa.