24
2025 March

Kirkjukór Grensáskirkju ásamt félögum úr Óperukórnum og Karlakór KFUM

Útvarpsmessa dagsins í Ríkisútvarpinu á Rás eitt, sunnudaginn 23. mars nk. kl. 11:00 verður frá Grensáskirkju. Upptaka fór fram fimmtudaginn 20. mars. Kirkjukór Grensáskirkju söng ásamt félögum úr Óperukórnum og Karlakór KFUM, undir stjórn Ástu Haraldsdóttur organista. Nemendur úr Suzuki tónlistarskólanum í Reykjavík léku á víólu og selló, en það voru þau Hugrún Eva Haraldsdóttir og Guðbjörn Mar Þorsteinsson. Messuþjónar lásu bænir. Leiðtogar úr barna- og æskulýðsstarfi Fossvogsprestakalls lásu ritningarlestra. Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi las guðspjall. Séra Þorvaldur Víðisson sóknarprestur prédikaði og þjónaði fyrir altari. Markús Hjaltason tæknimaður RÚV annaðist um upptökuna og þökkum við honum innilega fyrir gott samstarf. 

Föstutíminn stendur yfir. Fastan er undirbúningstími fyrir páskahátíðina sem er framundan. Textar dagsins og útlegging þeirra tóku því mið af föstunni. Spurningarnar sem varpað var fram voru meðal annarra: Hvað er að fasta? Getur veirð að það sé einhver leyndardómur fólginn í föstunni, kannski leyndardómur sem við svo gjarnan förum á mis við í nútímanum? Helgihald kirkjunnar getur verið manninum sem andleg heilsurækt, þar sem textar og bænir beinast að uppbyggingu okkar andlega innra lífs. Það er bæn okkar í Grensáskirkju að það megi vera reynsla allra sem hlusta á útsendinguna að helgihaldið verði þeim vettvangur andlegrar næringar, friðar og bænar. 

Við þökkum öllum innilega fyrir þátttökuna í upptökunni og biðjum öllum sem á hlýða blessunar og friðar. 

Útsendinguna má nálgast hér.