24
2024 February

Ánægjulegt samstarf kirkju og skóla

Tónlistarskólinn í Grafarvogi hóf tónlistarkennslu í Fossvoginum í samstarfi við Bústaðakirkju haustið 2022 undir heitinu Tóngraf og Tónfoss. Tónlistarskólinn í Grafarvogi var stofnaður 1991 og á 32 ára starfsafmæli í ár. Á síðustu árum hefur skólinn stækkað mikið og eru 40% nemenda skólans búsettir utan Grafarvogs, þá helst í Grafarholti, Úlfarsárdal og Fossvogi.

Samkvæmt stjórnendum skólans hafa viðtökur í Fossvogi verið frábærar. Samstarfið hefur jafnframt verið ákaflega farsælt milli skólans og Bústaðakirkju.

Fjölbreytt nám

Í dag sækja 16 forskólabörn nám í Bústaðakirkju hjá Auði Guðjohnsen og Eddu Austmann, sjö píanónám hjá Katrinu Heymann og þrjú gítarnám hjá Grétari Geir Kristinssyni. Samanlagt sækja því 26 nemendur tónlistarnám í Bústaðakirkju.

Einnig kórastarf

Forskólanemendur tónlistarskólans í heild mynda svo 55 söngvara kór við ýmsa viðburði innan kirkjunnar sem utan. Myndin hér til hliðar er einmitt tekin á aðventuhátíð Bústaðakirkju 2022, þar sem barnakórinn söng undir stjórn Auðar og Eddu, við undirleik Jónasar Þóris, kantors kirkjunnar. 

Stefnt er að því að fjölga nemendum enn frekar á komandi hausti en þá verður einnig boðið upp á framhaldsár í forskóla.

... gítar og ukulele

Á fyrsta ári forskóla er áhersla á söng, hreyfingu, blokkflautuleik og slagverk. Á öðru ári er áhersla á söng, hreyfingu, hljómborðsleik og ukulele. Eftir framhaldsár í forskóla er börnum boðið að velja sér hljóðfæri en þá stendur til boða samkennsla eða einkanám í Fossvogi.

Verið hjartanlega velkomin í TónGraf og TónFoss í Bústaðakirkju

Mikil ánægja er með samstarf Bústaðakirkju og Tónlistarskólans í Grafarvogi, TónGraf og TónFoss. Sé litið til komandi hausts er þegar hægt að skrá börnin til þátttöku. Sjá nánar á vef skólans, tongraf.is. 

Verið hjartanlega velkomin í tónlistarnám og barnakórastarf í Bústaðakirkju.

Staðsetning / Sókn