02
2024 November

Innsetningarathöfn í Grensáskirkju sunnudaginn 5. nóvember 2023

Sunnudaginn 5. nóvember sl. kl. 11 var séra Daníel Ágúst Gautason settur inn í embætti æskulýðsprests Grensáskirkju, í Fossvogsprestakalli. Séra Helga Soffía Konráðsdóttir prófastur annaðist innsetninguna, sem fólst í því að hún las fyrir söfnuðinn erindisbréf æskulýðsprests í Fossvogsprestakalli, sem undirritað er af biskupi Íslands. Í erindisbréfinu kemur fram hvert hlutverk æskulýðsprests er í prestakallinu, auk þess sem biskup Íslands sendir söfnuðum prestakallsins kveðju og bæn um blessun. Biskup Íslands vígði séra Daníel Ágúst til prestsþjónustu við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni sunnudaginn 22. október sl. Hér má sjá káta presta, séra Evu Björk og séra Daníel Ágúst, ásamt séra Helgu Soffíu prófasti, á innsetningardaginn. 

Nýstárlegt helgihald

Innsetningin fór fram í fjölskyldustöðvamessu í Grensáskirkju, þar sem form helgihaldsins var meira á nótum barnanna. En uppskeruhátíð barnastarfsins fór einmitt fram á sama tíma, en kirkjuprakkarar (6-9 ár krakkar) hafa verið í kirkjustarfi í Grensáskirkju undanfarnar vikur. Í kirkjuprakkarastarfinu var lögð áhersla á að við erum öll sköpuð til að vera skapandi. Föndur frá krökkunum var sýnilegt í safnaðarheimilinu og kirkjunni við þetta hátíðlega tækifæri. 

Frábærir leiðtogar í barna- og æskulýðsstarfinu

Leiðtogar úr barna- og æskulýðsstarfinu tóku þátt í innsetningarmessunni og voru frumlegar og skemmtilegar stöðvar, hluti af helgihaldi dagsins. Hér eru Hilda og Gréta að lesa ritningarlestra, ásamt séra Evu Björk, sem leiddi helgihaldið.

Kirkjuprakkararnir

Kirkjuprakkararnir (6-9 ára) gerðu ýmis verk í starfi sínu, undanfarnar vikurnar. Eitt af verkunum voru hendur, sem safnað var í þetta skemmtilega listaverk. Hendur okkar, geta nefnilega verið eins og hendur Guðs í heiminum, þ.e.a.s. við getum gert marga góða hluti með okkar höndum, skapað listaverk, hjálpað öðrum, beðið til Guðs, og þannig mætti áfram telja. 

Hér við hlið listaverksins stendur Kristinn Guðmundsson, einn af messuþjónunum í Grensáskirkju, en messuhóparnir eru hér býsna öflugir. 

Með kærum þökkum fyrir þátttökuna

Boðið var upp á veitingar í safnaðarheimilinu að athöfn lokinni. Við þökkum öllum þátttöku í fjölskyldustöðvamessunni. Verið hjartanlega velkomin í Grensáskirkju.