19
2024 April

Orð vikunnar, á degi íslenskrar tungu

Íslenska tungumálið, eins og öll lifandi tungumál heimsins, tekur breytingum og þróast. Hugtök sem Íslendingar notuðu fyrir kynslóðum síðan eru okkur sum hver framandi í dag.

Hvernig er það með tungatak trúar og kirkju? Á það sama við um tungutak trúarinnar? Hvað þýðir til dæmis orðið blessun í huga almennings í dag? Þurfum við hugsanlega að finna ný orð til að fanga inntak trúarinnar og ná betur til fólks í samtímanum?

Í vetur munu prestar og starfsfólk Fossvogsprestakalls, bjóða almenningi upp á að leggja orð í belg. Vikulega munu birtast orð á heimasíðu Fossvogsprestakalls og er almenningi boðið að senda okkur viðbrögð sín og hugleiðingar. Almenningur fær þar tækifæri til að leggja orð í belg, miðla sýn sinni og þekkingu og þannig dýpka skilning okkar á því hvaða orð sé best að nota til að fanga inntak trúarinnar.

Verkefnið er sett í gang í tilefni af degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2022, og mun standa fram eftir vetri.

Dæmi um orð sem birt verða í vetur eru eftirfarandi: Blessun, Náð, Aðventa, Jól, Mildi, Auðmýkt, Trú, Kærleikur, Fórn, Náungi, Fjölskylda, Söfnuður, Páskar, Bölvun, Himnaríki, Helvíti, Guð, Kristur o.fl.

Almenningur fær því tækifæri til að senda inn útskýringar sínar á einstökum orðum, sem og að koma á framfæri samheiti orðanna, hvaðan það telur að orðið sé upprunnið og öðru sem fólk sér ástæðu til að taka fram. Til að taka þátt er hægt að smella hér. Fréttir með samantektum á innsendum svörum verða síðan birtar á heimasíðu prestakallsins með reglubundnum hætti.

Endilega kynntu þér málið og taktu þátt.