31
2024 October

Danni djákni, verður prestur

Sunnudaginn 22. október nk. kl. 11 mun biskup Íslands vígja mag. theol. Daníel Ágúst Gautason sem æskulýðsprest Grensáskirkju og Fossvogsprestakalls. Vígslan fer fram í Dómkirkjunni í Reykjavík. Vígsluvottar verða séra Eva Björk Valdimarsdóttir, séra María G. Ágústsdóttir, séra Pálmi Matthíasson og séra Guðný Hallgrímsdóttir. Séra Helga Soffía Konráðsdóttir prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, lýsir vígslu. Athöfnin í Dómkirkjunni er öllum opin. 

Mag. theol. Daníel Ágúst hefur þjónað söfnuðum Fossvogsprestakalls, Bústaðakirkju og Grensáskirkju, undanfarin ár og frá árinu 2018 sem djákni. Síðan þá hefur hann aflað sér aukinnar menntunar sem og starfsreynslu, en á liðnu ári leysti hann m.a. af prest fatlaðra sem þá var í leyfi í heilt ár. 

Áfram mun Daníel Ágúst sinna þeim mikilvægu verkefnum sem hann hefur annast um undanfarin ár í söfnuðum prestakallsins eins og umsjón með æskulýðsfélaginu, barnastarfinu, barnamessunum og fjölskylduguðsþjónustunum og margt fleira. En með prestsvígslunni öðlast Daníel Ágúst tækifæri til að sinna hinum ýmsu prestsverkum sem mun efla hann í þjónustunni sem og starf safnaðanna til framtíðar. 

Söfnuðir Fossvogsprestakalls og samstarfsfólk Daníels Ágústs, fagna þessum ánægjulegu tímamótum.