25
2024 November

Afmælishátíð Grensáskirkju

Aðventuhátíð Grensáskirkju fór fram á öðrum sunnudegi í aðventu, 4. desember 2022 klukkan 17. Aðventuhátíðin er að jafnaði haldin á afmælisdegi kirkjunnar, en kirkjan var vígð á öðrum sunnudegi í aðventu árið 1996. 

Fermingarbörn vorsins 2023 hófu stundina á ljósahelgileik. Þau gengu inn í rökkvaða kirkjuna með kertaljós. Til skiptis lásu þau síðan fallega texta úr Biblíunni sem allir fjölluðu um ljósið, á meðan tendrað var á altariskertunum, aðventukransinum, sem og kertaljósum við skírnarfontinn og krossinn. Við hvern lestur fermingarbarnanna birti í kirkjunni.

 

Fiðlusveitin

Að loknu upphafsatriði fermingarbarnanna, ljósahelgileiknum, bauð séra María G. Ágústsdóttir alla velkomna til kirkju og kynnti fiðlusveit frá Suzukitónlistarskólanum í Reykjavík. Fiðlusveitin lék dýrðlega fyrir hátíðargesti, jólalög og fleira við undirleik Ástu Haraldsdóttur kantórs kirkjunnar. 

 

Ragnhildur Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri Biskupsstofu

Heiðursgestur aðventuhátíðarinnar að þessu sinni var Ragnhildur Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri Biskupsstofu, sem flutti hátíðarræðu. Þess má geta að Biskupsstofa er nú flutt í safnaðarheimili Grensáskirkju og fögnum við nýjum nágrönnum og væntum góðs af sambýlinu til framtíðar. 

Kirkjukór Grensáskirkju söng Slá þú hjartans hörpustrengi við undirleik Ástu Haraldsdóttur kantórs. Kórinn leiddi einnig samsöng, Bjart er yfir Betlehem, Far! Seg þá frétt á fjöllum og Fögur er foldin

Séra Þorvaldur Víðisson, leiddi bæn, faðir vor og blessun í lok stundarinnar og þakkaði öllum þátttakendum.

Piparkökur og mandarínur

Boðið var upp á kaffi, smákökur og mandarínur í safnaðarheimilinu að stundinni lokinni. Þuríður Guðnadóttir annaðist um veitingar og þjónustu. En veitingarnar voru bornar fram í mjög svo breyttu húsnæði safnaðarheimilisins þar sem glerveggir hafa verið fluttir og útbúin skrifstofa í anddyri kirkjunnar. Glerveggirnir römmuðu áður af glersalinn svokallaða, sem nú hefur fengið nýtt þak og mun nýtast söfnuði Grensássóknar mun betur til framtíðar. (Sjá mynd) 

Hin nýja skrifstofa í anddyri kirkjunnar

Í anddyri Grensáskirkju hefur verið útbúin ný skrifstofa sem ætluð er kirkjuverði og fleirum, þar sem stór hluti skrifstofurýmis Grensáskirkju í norðurhluta hússins hefur nú verið leigður undir starfsemi Biskupsstofu. Á þessari mynd má sjá glitta í glerveggi hinnar nýju skrifstofu. 

Framkvæmdir hafa gengið vel og fer nú að sjá fyrir endann á þeim.

Bænaljós

Verið hjartanlega velkomin í Grensáskirkju um hátíðarnar. 

Gleðilega aðventu.