Leiðtogaefni fá góðan stuðning
Leiðtogaskóli Þjóðkirkjunnar hófst í dag á með stund í Breiðholtskirkju. Þar var mættur fríður hópur af leiðtogaefnum víðsvegar af höfuðborgarsvæðinu. Leiðtogaskólinn er námskeið þar sem ungmenni fá þjálfun í að leiða og stjórna kirkjulegu starfið, með áherslu á æskulýðsstarf. Námsefnið er viðamikið, alveg frá trúarlegum pælingum að heilræðum og siðareglum þegar unnið er með ungmönnum. Tilgangurinn er að þjálfa, styrkja og gefa leiðtogaefnum tækifæri á því að kynnast og upplifa hvað Þjóðkirkjan hefur upp á að bjóða.
Þessa önnina sendir Fossvogsprestakall fimm leiðtogaefni í Leiðtogaskólann. Öll hafa þau verið virk í barna- og æskulýðsstarfi prestakallsins og erum við mjög ánægð að geta styrkt þau á þessari vegferð þeirra.
Viðamikið námsefni
Kennarinn er Anna Elísabet Gestsdóttir, Lísa, djákni og svæðisstjóri æskulýðsmála á höfuðborgarsvæðinu.Með henni til halds og trausts í dag var sr. Bryndís Malla Elídóttir, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.
Í dag var byrjað að fara yfir heilræði og siðareglurnar. Í kjölfarið var rætt um guðsmyndina sem og birtingarmynd Jesú í mismunandi menningarheimum. Þetta verður spennandi vetur í Leiðtogaskólanum og sendum við öllum þátttakendum ósk um velgengni.