07
2023 November

Friðarboðskapurinn er ríkur um jólin

Helgihaldið í Fossvogsprestakalli var að jafnaði vel sótt um jólin. Fjölmennast var í aftansöngnum á aðfangadagskvöld bæði í Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Grunnstefið í boðskap jólanna fjallar um frið.

Við höldum upp á fæðingu Jesú Krists og teljum árin okkar frá fæðingu hans. Hann er kallaður friðarkonungur og Vestrænt samfélag telur árin sín enn frá fæðingu Jesú, friðarkonungsins. Prédikun aftansöngsins í Bústaðakirkju fjallaði m.a. um þetta, en hana má nálgast hér: Friðarkonungurinn (kirkjan.is) 

Á jóladag var lesið úr Jóhannesarguðspjalli hin ljóðræni texti um Orðið. Orðið í samhengi Jóhannesar fjallar um Jesú. Áhugavert er að bera saman hina ólíku texta guðspjallanna um fæðingu Jesú. Í Markúsarguðspjalli er lykilstefið það að fagnaðarerindið hefst núna, á þessari stundu, í lífi okkar hvers og eins. Prédikun hátíðarguðsþjónustunnar í Grensáskirkju á jóladag fjallaði m.a. um þetta, en hana má nálgast hér: Fagnaðarerindið opinberast í lífi okkar hér og nú (kirkjan.is) 

Við áraskil, á gamlársdag, er eðlilegt að staldra við, horfa yfir liðið ár, meta stöðuna, hvar erum við stödd á lífsins vegi, hvar ert þú stödd/staddur á þínum lífsins vegi? Viska kynslóðanna mætir okkur í textum dagsins. Þar má finna áleitnar spurningar um lífið og framgang þess, þar sem postulinn er sannfærður um að ekkert geti komið í veg fyrir að Guð sé okkur nærri. Þar má finna dæmisögu um fíkjutré. Þar má finna ljóð er miðlar nærveru Guðs þar sem sálmaskáldið segir meðal annars og biður til Guðs: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Í guðspjallatexta dagsins úr Lúkasarguðspjalli segir Jesú dásamlega dæmisögu um fíkjutré. Fjallað var um fíkjutréð tákn þess og merkingu í prédikun við aftansöng í Grensáskirkju á gamlársdag, en hana má nálgast hér: Fíkjutréð (kirkjan.is)

Við hátíðarmessu á nýársdag var lesinn fallegur texti úr Mósebókum, blessunarorðin. Sá texti er einn af grundvallartextum Gamla testamentisins og er stöðug áskorun hins kristna manns að vera öðrum blessun hér í heiminum. Reyndar er það svo að þessi texti er einn af grundvallartextum Gyðingdómsins, Islam og Kristindómsins, þar sem öll þessi þrjú stóru trúarbrögð eiga þessa texta sameiginlega. Ættbálkurinn sem þar er sagt frá fékk það hlutverk að vera öðrum blessun. Vera öðrum, þ.e.a.s. þeim sem fyrir utan ættbálkinn stóðu, til gæfu. Þetta var gríðarlega róttæk hugmynd, svo róttæk að hún breytti heiminum. Prédikun hátíðarguðsþjónustunnar á nýársdag í Bústaðakirkju fjallaði m.a. um þetta, en hana má nálgast hér: Að vera öðrum blessun (kirkjan.is) 

Verið hjartanlega velkomin til helgihalds í Bústaðakirkju og Grensáskirkju á nýju ári.