04
2024 maí

Sólveig Rós fræddi fermingarbörn og foreldra

Dagskrá fermingarstarfanna í vetur hefur verið fjölbreytt. Fermingarstörfin hófust með þriggja daga námskeiði í lok ágúst, síðasta haust, áður en skólarnir byrjuðu. Fræðslutímar hafa síðan verið í vetur á miðvikudögum í Bústaðakirkju og fimmtudögum í Grensáskirkju. Fermingarkrakkarnir fóru í Vatnaskóg í haust og síðan tóku þau þátt í fermingarbarnasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar í nóvember. Stór þáttur í fermingarstörfunum er síðan þátttaka í helgihaldi kirknanna, þar sem fermingarbörn og foreldrar hafa flest staðið sig með prýði í vetur. 

Einnig hafa mörg fermingarbörn tekið þátt í starfi æskulýðsfélagsins Poný, en einmitt núna um helgina mun stór hópur ungmenna úr æskulýðsfélaginu taka þátt í æskulýðsmóti í Vatnaskógi. Þar koma saman æskulýðsfélög af öllu suð-vestur horni landsins, dagskráin fjölbreytt og vettvangurinn uppbyggilegur og skemmtilegur.

Foreldrar og fermingarbörn hafa einnig tekið þátt í upplýsingafundum og fræðslufundum í vetur. Tveir fræðslufundir hafa verið haldnir, fyrst á haustönn, þar sem umfjöllunarefnið var sorg og viðbrögð við missi

Í gærkvöldi fór síðan fram síðari fræðslufundur vetrarins, þar sem umfjöllunarefnið var hinseginleikinn og trúarbrögðin

Sólveig Rós, fyrrum fræðslufulltrúi Samtakanna 78, flutti fróðlegt erindi um hinseginleikann í hinum ólíku trúarbrögðum, í fortíð og nútíð. Gaf hún einnig færi á spurningum og samtali um þessi mikilvægu málefni og svaraði hún fróðlegum spurningum fermingarbarna og foreldra, ásamt prestunum. 

Við þökkum öllum góða samveru í gærkvöldi, og sérstaklega góða mætingu foreldra og forráðamanna.

Verið hjartanlega velkomin til helgihaldsins framundan og dagskrárinnar í Bústaðakirkju og Grensáskirkju.