
Helgihald í dymbilviku og um páska, ágætlega sótt
Helgihald um dymbilviku og páska var ágætlega sótt í Fossvogsprestakalli. Fermingar héldu áfram í báðum kirkju, Bústaðakirkju og Grensáskirkju, í upphafi dymbilviku, á Pálmasunnudag, 13. apríl. Nutu fermingarbörnin góðrar eftirfylgdar foreldra sinna, forráðamanna og fjölskyldna. Fermingarathafnirnar hafa verið hátíðlegar og hafa fermingarbörnin gjarnan tekið virkan þátt í athöfnunum sjálfum. Síðasta fermingin þetta vorið fer fram í Grensáskirkju sunnudaginn 27. apríl nk.
Frásagnir dymbilviku og páska innibera mikið drama. Á Pálmasunnudegi var Jesú fagnað sem þjóðhetju, þar sem hann kom til páskahátíðarinnar í Jerúsalem ríðandi á asna. Í helgihaldi dymbilvikunnar fylgjum við síðan Jesú eftir frá Pálmasunnudegi til Skírdagskvölds, þar sem hann neytir síðustu kvöldmáltíðarinnar með lærisveinum sínum, þvær fætur þeirra og er síðan svikinn af einum sínum nánustu vinum. Áfram fylgjum við síðan Jesú inn í myrkur Föstudagsins langa, þar sem Guð í gegnum Jesú gengur í fótspor mannsins, reynir þjáningu heimsins, svik og þann hrylling sem heimurinn getur verið vettvangur fyrir. Þar lauk ekki sögu Jesú því hann reis síðan upp á Páskadagsmorgni, samkvæmt ritningunum. Þennan boðskap miðlar kirkjan með helgihaldi sínum um dymbilviku og páska.
Ágæt þátttaka var í helgihaldinu í báðum kirkjum. Við nutum einsöngs og samsöngs, kórsöngs og samveru. Á Páskadagsmorgni var síðan boðið til morgunverðar að loknum hátíðarguðsþjónustum í báðum kirkjum. Myndin hér er af morgunverðarborði í Bústaðakirkju á Páskamorgni.
Ein nýjung var á dagskrá Fossvogsprestakalls þessa páskana. Boðið var upp á helgihald við sólarupprás, undir berum himni, við Fossvogskirkju, inni í Fossvogskirkjugarði.
Við þökkum öllum þátttöku í helgihaldi dymbilviku og páska. Þökkum Kvenfélagi Bústaðasóknar fyrir þjónustu sína í fermingum í Bústaðakirkju og þjónustu og stuðning allan. Við þökkum messuþjónum og sóknarnefndum, Kirkjukór Grensáskirkju og Kammerkór Bústaðakirkju, starfsfólki öllu og sjálfboðaliðum.
Megi upprisusól páskanna lýsa upp tilveru ykkar. Í kjölfar páskanna taka nú við gleðidagar í kirkjum landsins.
Verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju og Grensáskirkju.