50 ár frá upphafi eldgossins í Vestmanneyjum
Heimaeyjargosið hófst 23. janúar 1973. Gosið er fyrsta eldgos sem hefst í byggð á Íslandi. Giftusamlegri björgun á fólki og stórum hluta af eignum er minnst þegar gosið er rifjað upp. Þó að nýjar kynslóðir Íslendinga hafi ekki upplifað atburðina örlagaríku eru þeir þó greyptir í hjörtu Eyjamanna. Minningarnar lifa og munu berast frá manni til manns, frá kynslóð til kynslóðar. Sem lið í þeirri þakkargjörð sem björgun á íbúum var og endurreisn byggðarinnar var efnt til Eyjamessu í aðdraganda 50 ára afmælis gosupphafsins.
Stundin var áhrifarík. Tónlistin yndisleg, ávarp Írisar Róbertsdóttur bæjarstjóra áhrifaríkt og ekki síður prédikun hr. Karl Sigurbjörnssonar, biskups.
Kirkjan er gjarnan vettvangur stórra viðburða í lífi einstaklinga og samfélags. Við komum til kirkju til að gleðjast en einnig syrgja og vinna úr erfiðri reynslu. Eyjamessan var svona minningar- og þakkarstund, og sem slík, liður í úrvinnslu þeirra gríðarlegu hörmunga sem eldgosið sannarlega var. Mitt í hörmungunum varð það síðan samhjálpin og sú blessun sem við mannfólkið getur verið hvert öðru, sem stóð upp úr.
Í lok messunnar minntist Guðrún Erlingsdóttir, sem er í stjórn ÁTVR, Átthagafélags Vestmannaeyinga í Reykjavík, aðstoðar Norðmanna í kjölfar gossins, en sú aðstoð var engri lík og samfélaginu mikil blessun. Í framhaldi helgihaldsins í kirkjunni var boðið upp á kaffiveitingar þar sem ÁTVR bauð upp á veitingar með kaffinu. Þar leiddi Guðrún Erlingsdóttir áhrifaríkt samtal, yfir kaffisamsætinu, þar sem hún spurði systkinin Guðlaug Sigurgeirsson og Guðrúnu Sigurgeirsdóttur um reynslu þeirra varðandi flóttann frá Eyjum og það sem við tók.
Védís Guðmundsdóttir lék á þverflautu
Védís Guðmundsdóttir lék á þverflautu í upphafi helgihaldsins í Bústaðakirkju. Védís er dóttir Guðmundar Hafliða Guðjónssonar fyrrum organista við Landakirkju. Védís lék Serenödu eftir W. Glück, við undirleik Jónasar Þóris kantórs kirkjunnar.
Séra Þorvaldur Víðisson, þjónaði fyrir altari
Séra Þorvaldur Víðisson, sóknarprestur í Bústaðakirkju þjónaði fyrir altari ásamt Hólmfríði Ólafsdóttur djákna og Gunnari Sigurðssyni messuþjón. Þorvaldur þjónaði sem prestur við Landakirkju á árunum 2002-2006.
Hr. Karl Sigurbjörnsson prédikaði
Hr. Karl Sigurbjörnsson prédikaði fyrir nær fullri Bústaðakirkju. Hr. Karl þjónaði Eyjamönnum í gosinu og rifjaði m.a. upp fyrstu guðsþjónustuna í Landakirkju sem haldin var í júlí 1973 í kjölfar þess að Almannavarnir lýstu því yfir að gosinu væri lokið. Í þeirri guðsþjónustu var lítil stúlka borin til skírnar, Hrönn Róbertsdóttir, sem er systir núverandi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Írisar Róbertsdóttur.
Hr. Karl birti prédikun sína á Facebook síðu sinni og gaf leyfi sitt fyrir því að hún yrði jafnframt birt hér með þessari frétt. Við þökkum honum innilega fyrir það. Prédikunina má finna neðar í þessari færslu.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, flutti ávarp
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum flutti áhrifaríkt ávarp. Hún var á fyrsta ári er hún var viðstödd fyrstu guðsþjónustuna í Landakirkju eftir gos, þar sem systir hennar, Hrönn, var skírð af þáverandi presti Eyjamanna og síðar biskupi Íslands, hr. Karli Sigurbjörnssyni.
Íris birti ávarp sitt á Facebook og gaf heimild sína fyrir því að ávarpið yrði jafnfram birt á heimasíðu kirkjunnar. Þökkum við henni innilega fyrir það. Ávarpið má finna neðar í þessari færslu.
Eyjalög og tónlist
Auk klassískra sálma sem leiddir voru af félögum úr Kammerkór Bústaðakirkju voru eyjalögin sungin. Gísli Helgason söng og lék á flautu, sem og Helgi Hermannsson sem söng og lék á gítar. Þeir léku Eyjasyrpu eftir Sigurbjörgu Axelsdóttur og Þorgeir Guðmundsson, Brosið þitt, eftir Árna Johnsen og Þorgeir Guðmundsson, og Heimaslóð, eftir Ása í Bæ og Wosa.
Rósalind Gísladóttir söng Heima eftir Oddgeir Kristjánsson og Ása í Bæ, sem og Vestmannaeyjabær, eftir Jakob Frímann Magnússon og Valgeir Guðjónsson.
Stundinni lauk síðan á því að allir sungu saman Kvöldsiglingu, eftir Oddgeir Kristjánsson og Jón Sigurðsson.
Guðrún Erlingsdóttir, flutti ávarp
Guðrún Erlingsdóttir úr stjórn ÁTVR, Átthagafélags Vestmanneyinga í Reykjavík, flutti ávarp. Hún minntist m.a. aðstoðar Norðmanna í gosinu sem var gríðarlega rík. Svo leiddi hún mjög áhrifaríkt samtal í safnaðarheimilinu, yfir kaffisamsætinu, þar sem hún spurði systkinin Guðlaug og Guðrúnu Sigurgeirsbörn spjörunum úr varðandi flóttann frá Eyjum og það sem við tók.
Kaffisamsætið í safnaðarheimilinu
Fjölmenni var í kaffisamsætinu, þar sem ÁTVR, Átthagafélag Vestmanneyinga í Reykjavík, útvegaði meðlætið. Þar á meðal þessa köku með einni af frægari myndunum frá gosinu, þar sem Landakirkja stendur með eldgosið í bakgrunni.
Myndirnar með þessari umfjöllun eru fengnar af Facebook síðu ÁTVR.
Með þökkum til allra fyrir samveruna.
Við tökum undir með hr. Karli biskupi sem sagði í lok prédikunar sinnar: Ljós Krists og andi vaki yfir Vestmannaeyjum og öllum þeim sem þar búa, þar eiga rætur sínar, það laugi og lækni minningarnar og lýsi, leiði, blessi þig.
Prédikun hr. Karls biskups
Prédikun hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups, í Eyjamessu í Bústaðakirkju, 15. janúar 2023:
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hálf öld er langur tími en mörgum hér inni eru þeir atburðir sem minnst er nú eins og hafi gerst í gær. Eldgosið á Heimaey eru mestu hamfarir sem orðið hafa í byggð á okkar landi. Í þeim ógnum öllum varð þjóðin vitni að undursamlegasta björgunarafreki Íslandssögunnar. Fimm þúsund manns var bjargað úr eldinum á einni nóttu, það var afrek, jú, og það var kraftaverk, það var máttarverk Guðs, sem þjóðin varð vitni að. Þvílík mannbjörg og mildi hefur ekki áður sést í sögu þjóðarinnar. Gleymum ekki þeirri Guðs mildi! Og gleymum ekki þeim hjálpandi höndum sem hvarvetna voru réttar fram til að styðja og hjálpa, gleymum ekki samstöðu alþjóðar og vinaþjóða sem veittu ómetanlega hjálp, síst má það gleymast. Gleymum ekki sjómönnunum sem tóku við fólkinu og fluttu heilu höldnu til lands, gleymum ekki björgunarfólkinu sem lagði nótt við dag við skelfilegar aðstæður, í öskuregni og lífshættulegu eiturgasinu, gleymum ekki fólkinu sem lauk upp heimilum sínum fyrir landflótta Vestmannaeyingum, gleymum ekki leiðtogum okkar, stjórnmálamönnum, bæjarstjórnarmönnum sem sýndu svo mikla einurð og atorku að aðdáunarvert er. Við munum hann Magnús H. Magnússon bæjarstjóra og hans hógværð og festu. Mörgum hnykkti við þegar forsætisráðherra, Ólafur Jóhannesson sagði með áhersluþunga: „Vestmannaeyjar skulu rísa!“ Það þótti djarflega mælt og kokhreysti frammi fyrir þeim reginöflum náttúrunnar sem við var að etja. En taldi kjark í þjóðina, efldi baráttuviljann. Enda höfum við sjaldan orðið vitni að annarri eins þjóðarsamstöðu eins og þá. Ríkisútvarpið var með sérstaka dagskrá fyrir Vestmannaeyinga á hverjum degi, Eyjapistil. Það var ómetanleg samfélagsþjónusta. Og þar fórum við prestarnir með bænarorð sem voru römmuð inn af klukknahljómi Landakirkju, orð og hljómur sem lagði áhyggju alla á umhyggju Guðs, og lauk upp fyrir orði vonarinnar. Von er annað en bjartsýni. Bjartsýni er tilfinning og háð persónuleika manns og alla vega aðstæðum. En vonin byggir á trausti og tiltrú, von er að vænta þess að það muni birta þrátt fyrir allt myrkur. Og eins og höfundur Hebreabréfsins segir: „Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ Og hann segir: „Höldum fast við játningu vonar okkar án þess að hvika því að trúr er sá sem fyrirheitið hefur gefið.“ Svo segir hann: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka...og uppörvið hvert annað...“ Þetta er ekkert flókið! En hver gefur það fyrirheit?
Von er sterkasti aflvakinn, ásamt trú og kærleika. Allt er það andlegs eðlis og gjöf, sem er lögð manni í brjóst. Oft þarf ekki nema eitt orð til að vekja vonina til lífsins. Eitt ljós til að vekja trúna, eitt handtak til að virkja afl umhyggjunnar. Við þekkjum það öll. Þau reginöfl og ógn sem af náttúruöflunum stafar eru eitt, annað er máttur hins illa sem svo oft virkjar vit og vilja mannanna til voðaverka, eins og við höfum horft upp á í Úkraínu umliðið ár. Og það er sem heimurinn allur sjái enga lausn, enga von nema í öflugri vopnum og enn meiri eyðileggingu. Rödd friðarins virðist svo veik og vanmáttug. Það vantar ekki þau sem tala niður trú og helgar hefðir og setja allt traust sitt á mannsins mátt og megin. Við skulum samt halda fast í játningu vonar okkar, já og trúar og kærleika. Við höfum séð það sem gefur manneskjunni djörfung og kjark og von, vekur hugi og hendur til viðbragða hjálpar og umhyggju augliti til auglitis við ofurefli. Það er í gær og í dag og ævinlega hið sama. Þetta fengum við að reyna og sjá á þeirri ögurstund sem Vestmannaeyjagosið var. Ef við bærum gæfu til sem þjóð að taka höndum saman um að treysta þær andlegu stoðir og innviði sem úrslitum valda um farsæld hinna ungu, og gæfu einstaklinga og samfélags, hamingjuleiðina og vegvísana til heilla, friðar og frelsis og er trú, von og kærleikur.
Skömmu eftir að gosið hófst var ég kallaður og vígður til að þjóna fólkinu sem flúið hafði heimili sín og bjó nú dreift hér um suð-vesturhorn landsins. Þar varð ég vitni að ótrúlegum kjarki, þolgæði og æðruleysi hinna mörgu. Og fékk að sjá og reyna svo víða holla ávexti af þeirri rækt og næringu sálar og anda sem fólk hafði notið frá bernsku við heilagt orð, bæn og helgar hefðir sem tengdu við afl trúar, vonar og kærleika. Þó það gæti kannski sjaldnast komið orðum að því.
Allan tímann meðan eldurinn var uppi stóð Landakirkja uppljómuð. Þeir feðgar, Friðfinnur Finnsson og Jóhann Friðfinnsson, trúfastir hollvinir kirkjunnar, - Guð blessi minningu þeirra - létu það verða sitt síðasta verk áður en þeir yfirgáfu heimabyggð sína örlaganóttina miklu að kveikja ljósin í kirkjunni. Það var kærleiksverk, trúarjátning og vonartákn. Þeir vildu að ljósin frá Landakirkju lýstu við þeim sem neyddust til að flýja og þeim sem þar yrðu eftir við björgunarstörf. Þau skyldu varpa birtu vonar inn í huga og hjörtu, ítreka með sínum hætti það sem letrað var á sáluhliðið að kórbaki, orð frelsarans: Ég lifi og þér munuð lifa. Þessi tákn og máttarorð stóðu þögul á baksviði loganna, öskusortans og heljarhramms hraunstraumanna sem ógnuðu byggð og lífi. Og ljósin og trúarorðin stöfuðu inn í hugi fólksins bæninni um miskunn og hjálp og fyrirheitin um líf. Það er innistæða fyrir hvoru tveggja, ljósinu og orðunum. „Trúr er sá sem fyrirheitið hefur gefið.“ Það er Kristur Jesús. Þessi gjörð þeirra feðga og þessi tákn sem blöstu við eru í mínum huga áminning um það hvað kirkjan er og á að vera: Ljósberi og orð vonarinnar í nafni Jesú Krists. Guð blessi þau öll sem halda uppi því ljósi og vitna um það orð með lífi sínu, orðum og verkum!
Miskunn Guðs hélt hlífiskildi yfir þeim sem stefndu út í nóttina burt frá Eyjum þessa dimmustu nótt lífs síns. Það var mikið beðið þá nótt og daga og nætur sem í hönd fóru. Bæn og trú, von og kærleikur varð leiðarljós ótal mörgum. Það hafa margir reynt og séð fyrr og síðar.
Landakirkja beið uppljómuð eftir börnum sínum meðan eldarnir loguðu. Goslokum var formlega lýst 3. júlí og var í framhaldi af því efnt til guðsþjónustu þar. Sú stund gleymist seint. Barn var borið til skírnar, Hrönn Róbertsdóttir, og svo var gengið til altaris. Hvort tveggja vonarmerki andspænis ógn og óvissu. Þá eins og alltaf, fyrr og síðar. Það var fagur dagur, sól og blíða, fjöll og eyjar í tiginni ró. En allt var að mestu hulið kolsvartri ösku. En hreinsunarstarf þegar hafið! Það er með ólíkindum hve hratt og örugglega var unnið að því og greiða því veg að fólk gæti snúið heim. Fyrsta félags- og samfélagsstarf sem komst á laggirnar í Eyjum eftir gos var kirkjustarfið. Klukkur Landakirkju kölluðu til guðsþjónustu og barnastarfs hvern helgan dag, ómur vonar, trúar og kærleika barst yfir bæinn.
Nú er hálf öld liðin frá þessum ógnaratburðum öllum. Vestmannaeyjar risu! Heimaey greri og mannlífið í Eyjum hefur
dafnað. En ég geri mér grein fyrir því að víða eru ör á sál og þungi við hjartarætur eftir öll þessi ár. Sorg, já og jafnvel reiði, hún er eitt af mörgum andlitum sorgarinnar. Tíminn læknar öll sár er sagt, jú, víst gróa sár en örin sitja gjarna eftir og svíður í, jafnvel löngu síðar þegar síst skyldi, það þekkjum við öll. Minning jarðeldanna er því í senn borin uppi af þakklæti og sorg. Hvort tveggja leggjum við í Drottins mildu hendur nú.
Örlaganóttina 23. janúar 1973 var þjóðin minnt á varnaleysi manneskjunnar og smæð gagnvart ofurkröftum náttúrunnar. En jafnframt á það – og því megum við aldrei gleyma - að þrátt fyrir alla ógn og vá er annað afl, annar máttur sem undirtökin hefur í tilverunni. Guð, góður Guð. Þrátt fyrir sortamyrkur og allskyns öskukóf þá er hann að verki, ljóssins og lífsins máttur. Hann birtist ekki síst þegar umhyggjan kemst að og ræður för, kærleikurinn, vonin og trúin. Það er björgunin besta, grunnur gæfunnar, afl friðarins. Því er miðlað og ræktað með hefðum, orðum og athöfn sem tendra ljós í hugum og hjörtum og helgidómum, eins og þeir feðgarnir gerðu forðum nóttina skelfilegu forðum. Fyrirheit Krists eru í fullu gildi: „Ég lifi og þér munuð lifa.“ Já, Hann lifir og við munum lifa! Ljósið hans lýsir og hönd hans útrétt til hjálpar og leiðsagnar. Ljós hans og andi vaki yfir Vestmannaeyjum og öllum þeim sem þar búa, þar eiga rætur sínar, það laugi og lækni minningarnar og lýsi, leiði, blessi þig.
Ávarp Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum
Ávarp Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmanneyjum:
Kæru kirkjugestir!
Okkur er tamt að segja í Vestmannaeyjum – fyrir og eftir gos. Svo djúp og lifandi er minningin um eldgosið sem hófst fyrir réttum 50 árum, eða aðfararnótt 23. janúar 1973. Fimm þúsund og þrjú hundruð Eyjamenn þurftu að yfirgefa heimili sín sem mörg hver fóru undir ösku og eld. Þessa sögu þekkja allir Íslendingar og í Eyjum gerum við meira en að þekkja söguna – við lifðum hana – og hún er stór hluti af því að vera Vestmannaeyingur.
Þessi stærsti viðburður í rúmlega 1000 ára sögu Eyjanna, og í raun landsins alls, er hálfrar aldar gamall. Það eru því fyrir löngu komnar fram kynslóðir þar sem eldgosið er saga en ekki upplifun. Því er mikilvægt að við varðveitum minningar og heimildir frá þessum tíma.
Sögurnar eru margar og teygja sig víða um íslenskt samfélag – og til annarra ríkja líka.
Heimaeyjargosið er einn af þessum viðburðum sem aldrei gleymist þeim sem hafa aldur til að muna. Ég á sjálf fjölskyldusögu eins og svo margir aðrir Eyjamenn frá þessari nótt - og því sem við tók.
Mamma, Svanhildur Gísladóttir, var 23ja ára gömul, með mig eins árs gamla og komin sjö mánuði á leið með systur mína 22. janúar 1973. Hún og pabbi, Róbert Sigmundsson, voru fyrstu nóttina á nýju heimili í Viðey - á Vestmannabraut 30. Þau voru ný sofnuð þegar Hansína, systir mömmu, vakti þau og lét vita að eldgos væri hafið í austurbænum.
Mamma trúði henni nú tæplega sem von var. En þetta var raunin og við fjölskyldan, ég mamma og pabbi fórum niður á bryggju. Ég klæddi í úlpu og ullarsokka - og mamma tók með eina bleyju og pela. Mamma ætlaði bara að fara sutta stund og koma svo heim aftur, en það var ekki raunin. Við fórum með fiskibáti eins og stór hluti íbúa á Heimaey - og vorum við mæðgur mjög sjóveikar en vorum samt heppnar því við fengum koju.
Ferðin var erfið og mömmu hryllir alltaf við að rifa hana upp. Hún lætur þó alltaf fylgja með að Guð hafi verndað okkur og aðra Eyjamenn þessa nótt. Ég held að það sé mikið til í því.
Við fjölskyldan fengum ekki húsnæði fyrst í stað, en fengum svo loks íbúð á Laufásvegi þar sem Hrönn systir bættist í hópinn í mars 1973.
Mamma var og er mjög trúuð kona. Hún ræddi við sr. Karl Sigurbjörnsson, sem þá var prestur í Vestmannaeyjum, í byrjun júlí þegar tími var kominn til að skíra Hrönn. Sr. Karl lagði til að skírnin færi fram í fyrstu messu í Landakirkju eftir að gosi væri formlega lokið.
Það varð úr og við fjölskyldan flugum til eyja í júlí - með sr. Karli. Það var auðvitað allt svart, og það þurfti meira að segja að grafa göng í gegnum vikurinn til að komast inn í kirkjuna.
Mig langar að vitna í orð mömmu, í viðtali sem Guðrún Erlingsdóttir tók við hana og birtist í Morgunblaðinu 2018, sem lýsa þessar sérstöku og fallegu stundu vel:
„Þegar við komum inn í anddyrið var það fullt af stígvélum og kirkjan troðin af fólki. Aðallega karlmönnum í vinnufötum sem unnu við hreinsunarstörf og uppbyggingu. Stígvél voru það eina sem dugði sem skótau á þessum tíma og þeir vildu ekki fara inn í kirkjuna í þeim,“ mamma verður verður þögul um stund.
„Tilfinningin var sterk þegar ég gekk inn með barnið í hvítum skírnarkjól. Niður kinnar karlmannanna í köflóttum vinnuskyrtum á sokkaleistunum runnu tár. Þó allt væri svart í bænum náðu geislar sólarinnar að skína inn um gluggana og barnið í hvítum skírnarkjól var eins og tákn um upprisu, nýtt upphaf. Karl sagði að þetta hefði verið merkileg athöfn og ég gleymi henni aldrei,“ segir mamma .
Hrönn systir var því fyrsta barnið sem skírt var í Landakirkju eftir gos - í fyrstu messunni. Móðir mín talar enn um þessa athöfn og er svo þakklát sr. Karli. Myndin, sem er tekin fyrir utan Landakirkju þennan dag með Barnaskólann í bakgrunn, segir meira en þúsund orð.
Ég ber ómælda virðingu fyrir því fólki sem tókst á við þessi ósköp - og er þeim líka svo þakklát sem komu aftur heim og byggðu upp okkar yndislegu Eyju. Við heiðrum verk þeirra og minningu best með því að halda ótrauð áfram því uppbyggingarstarfi sem þau lögðu grunninn að. Á þessu ári verður þessara merku tímamóta minnst með margvíslegum hætti og alltaf með virðingu og þakklæti fyrir að ekki fór verr.
Takk fyrir þessa stund.”