29
2025 August

Vettvangur samfélags og þess að við ræktum okkar andlega líf

Kirkjan er vettvangur samfélags og þess að við fáum tækifæri til að rækta okkar andlega líf í einrúmi og í samfélagi við fleiri. Dagskráin í Bústaðakirkju og Grensáskirkju í vetur verður fjölbreytt, þar sem þekktir dagskrárliðir verða á sínum stað í bland við nýja. 

Bæna- og hugleiðsluhópur karla verður í Bústaðakirkju á þriðjudögum kl. 20 undir handleiðslu séra Vigfúsar Bjarna Albertssonar, forstöðumanns Fjölskyldu- og sálgæsluþjónustu kirkjunnar. Fyrirbænastundir verða í Grensáskirkju í hádeginu alla þriðjudaga, sem prestar safnaðanna skiptast á að leiða, mögulegt verður að koma sínum fyrirbænum á framfæri. 

Eldri borgarastarfið verður á sínum stað í Bústaðakirkju alla miðvikudaga í umsjá Hólmfríðar Ólafsdóttur djákna með sinni fjölbreyttu dagskrá. Æskulýðsfélagið heldur sína fundi í Grensáskirkju öll þriðjudagskvöld kl. 20 og er í umsjá Sólveigar Franklínsdóttur æskulýðsfulltrúa. Kirkjuprakkarastarfið og TTT fer einnig fram í Grensáskirkju á auglýstum tímabilum í vetur. Foreldramorgnar eru starfsræktir í Bústaðakirkju alla fimmtudagsmorgna kl. 10 þar sem Ragnheiður Bjarnadóttir tónlistarkennari leiðir starfið. 

Fyrirhugað er að halda krílasálmanámskeið í Grensáskirkju á mánudagsmorgnum í október og nóvember. 

Prjónakaffi er vikulega á dagskrá í Grensáskirkju, alla fimmtudagsmorgna kl. 10. Prjónakaffi er þriðja mánudag í mánuði í Bústaðakirkju kl. 20. 

Kvenfélag Bústaðasóknar heldur sína mánaðarlegu fundi annan mánudag hvers mánaðar í Bústaðakirkju í vetur. 

Tólf spora starf Vina í bata fer fram í Grensáskirkju öll fimmtudagskvöld kl. 19:15 og eru opnir fundir í september. Í aðdraganda þeirra funda bjóða kyrrðarbænasamtökin upp á kyrrðarbænastundir í kapellunni í Grensáskirkju alla fimmtudaga kl. 18:15. Karlakaffi er á dagskrá í Bústaðakirkju annan föstudag í hverjum mánuði kl. 10. 

Vikuleg fermingarfræðsla fer fram í Bústaðakirkju á miðvikudögum og í Grensáskirkju á fimmtudögum. Svo eru söfnuðirnir í góðu samstarfi við Tónskólann í Reykjavík, sem starfrækir barnakór á vettvangi Bústaðakirkju. 

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í messuþjónastarfi kirknanna þá máttu endilega láta prestana vita. 

Bakvaktasími presta prestakallsins er 537-1250.

Nánari upplýsingar má finna á plakatinu hér. 

Verið hjartanlega velkomin til þátttöku í starfi kirkjunnar.