06
2024 September

Leggjum okkar að mörkum til friðar í heiminum

Bókin Gimsteinninn miðlar boðskap Biblíunnar um frið. Höfundur bókarinnar er séra Þorvaldur Víðisson og útgefandi er Kirkjuhúsið-Skálholtsútgáfan. Kirkjuhúsið kallaði eftir umsögnum um bókina, en nokkrar þeirra birtast hér fyrir neðan.

 

Um bókina segir Tryggvi Hjaltason:

 

Öll viljum við hafa frið í heiminum, í nærumhverfi okkar, í hjarta okkar. En erum við að lifa lífinu okkar með þeim hætti að friður flæðir frá okkur og til okkar? Í Gimsteininum kjarnar Þorvaldur svo áreynslulaust hvernig Kristur gat haft svo mikil áhrif á heiminn með friðinn að vopni og hvernig vegferð friðarins inn í okkar dýpstu hjartarætur stendur okkur galopinn í dag. Hvernig bænin getur virkað sem “hin leyndardómsfulla nærvera Guðs í lífi þínu” (sjá bls 20) og hvernig Jesú kynnti byltingarkenndan lífsstíl eins og elska óvini sína. Þegar lögmálum Krists er fylgt eftir í hinu persónulega lífi er ávöxturinn gjarnan langvarandi friður, gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Gimsteinnin stendur svo sannarlega undir nafni með því að afhjúpa þennan forna leyndardóm og ávexti hans á svo aðgengilegan hátt.  

 

Um bókina segir Halldór Reynisson:

 

Þessi fallega bók Gimsteinninn sem sr. Þorvaldur Víðisson hefur tekið saman, setur í brennidepil það sem kristin lífsskoðun fjallar um; trú ,von og kærleik í friði við alla menn. Hann sér þau viðhorf og trú koma saman eins og í ljósbroti gimsteins – Biblíunni - eða eins og hann segir sjálfur: “Það er líkt og Biblían sé gimsteinn sem birtir okkur nýjar, litríkar og lifandi myndir þegar við leyfum lífsljósi okkar að lýsa í gegnum sögur Biblíunnar og heimfærum þær upp á okkar eigið líf,”
Gimsteinninn er aðgengileg og ljóðræn útlistun á þeim mikla arfi sem í kristninni felst og hentar fólki á öllum aldri, ungum sem eldri.

 

Um bókina segir Halla Jónsdóttir: 

 

Bókin Gimsteinninn hjálpar okkur að sjá líf okkar í nýju ljósi. Lestur hennar getur stuðlað að auðugra og friðsamara lífi og gert okkur kleift að spegla okkur í lífi Jesú sjálfs. Bókin er skrifuð í stuttum og hnitmiðuðum stíl sem gerir hana auðvelda aflestrar. Bók sem hentar fólki á öllum aldri, ekki síst ungu fólki. 

 

Um bókina segir Auður Pálsdóttir:

 

Gimsteinn er hlýleg bók er kynnir verðmætan eðalstein sem við öll höfum aðgang að en veitum oft ekki athygli. Þessi gimsteinn er Biblían. Í Gimsteini leiðir höfundur lesandann að ólíkum hliðum mannlegs lífs þar sem við lesum um samferðafólk okkar og okkur sjálf frá sjónarhóli friðar og kærleika. Í Gimsteini spyr höfundur spurninga sem leiðir okkur að pælingum um líf okkar, hvernig við getum staldrað við og hlustað á okkar innri rödd. Einstök bók með vingjarnlegu viðmóti sem styður og nærir lesandann.

 

Bókin fæst í Kirkjuhúsinu-Skálholtsútgáfunni, á neðri hæð Bústaðakirkju og í helstu bókabúðum. Nánari upplýsingar má finna hér