10
2025 November

Með kærum þökkum til tónlistarfólksins og einnig tónleikagesta

Bleikur október í Bústaðakirkju var haldinn í fimmtánda skipti nú í ár. Jónas Þórir organisti hafði veg og vanda að dagskránni eins og áður. Einvalalið tónlistarfólks tók þátt í dagskránni og gaf vinnu sína, þar á meðal Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Hjörleifur Valsson, Björn Thoroddsen, Bjarni Sveinbjörnsson, Bjarni Atlason, Matthías Stefánsson, Bjarni Arason ásamt félögum úr Kammerkór Bústaðakirkju. 

Hádegistónleikar fóru fram alla miðvikudagana í október, utan 29. október, þar sem tónleikarnir féllu niður vegna ófærðar. Sunnudagarnir voru einnig litaðir bleikum litum, þar sem tónlistin í helgihaldi sunnudaganna var í anda yfirskriftarinnar: Stríð, friður og kærleikur. Yfirskriftin er vísun í blómatímann, þar sem ófriðarástand var í heiminum á þeim tíma sem skapaði grundvöll nýrrar tónlistar um frið og kærleika. Friður og kærleikur er jú boðskapur kirkjunnar á öllum tímum. 

Aðgangur á hádegistónleikana var ókeypis en tónleikagestum var boðið að styðja Ljósið, endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og kaupa bleiku slaufu Krabbameinsfélagsins. Bleikar slaufur voru seldar fyrir kr. 612.500.- og söfnunarfé til Ljóssins að viðbættu framlagi Kvenfélags Bústaðakirkju og sóknarnefndar var kr. 800.000.-

Samtals skilaði því Bleikur október í Bústaðakirkju Ljósinu og Krabbameinsfélaginu yfir kr. 1.400.000.-

Við þökkum tónlistarfólkinu dýrmætt framlag sitt og öllum tónleikagestum samveruna, þátttökuna og fjárframlögin, sem fara í góð málefni. 

Verið hjartanlega velkomin til þátttöku í starfi Bústaðakirkju.