22
2024 November

Hádegistónleikar alla miðvikudaga, tónlistarveisla á sunnudögum og fræðsludagskrá

Bleikur október í Bústaðakirkju er dagskrá sem helguð er stuðningi við þau fjölmörgu sem glíma við krabbamein og aðstandendur þeirra. Dagskráin samanstendur af hádegistónleikum alla miðvikudaga kl. 12:05, fræðsluerindum á miðvikudögum og sunnudögum, sem og helgihaldi í anda yfirskriftarinnar: Miðaldir í helgihaldi og tónlist

Jónas Þórir organisti hefur veg og vanda að dagskránni ásamt prestum og starfsfólki Bústaðakirkju. 

Kammerkór Bústaðakirkju ber uppi tónlistina, þar sem sólistar úr kórnum láta ljós sitt skína. Einnig munu fleiri einsöngvarar og tónlistarfólk taka þátt, eins og Diddú, Kristján Jóhannsson, Hallveig Rúnarsdóttir, Hjörleifur Valsson, Bergþór Pálsson, Gissur Páll Gissurarson og sönghópurinn Kyrja, eins og sjá má á dagskránni sem fylgir þessari frétt. 

Fjölbreytt fræðsludagskrá verður jafnframt í boði í Bleikum október í Bústaðakirkju. Margrét Kjartansdóttir segir frá veru sinni á Indlandi. Séra Flóki Kristinsson flytur erindi um helgihald miðaldarkirkjunnar. Séra Skúli S. Ólafsson flytur erindi undir yfirskriftinni: Hvað fyllti skarð dýrðlinganna? Sálarheill og sálarró á 17. öld. Séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir flytur erindi undir yfirskriftinni: Ljóðin um Hallgrím. Arnþór Óli Arason mun fjalla um pílagrímagöngu sína til Rómar. 

Prestar kirkjunnar leiða helgihaldið ásamt öðru starfsfólki og messuþjónum. Sigurbjörn Þorkelsson mun prédika 3. nóvember, en í helgihaldinu þann dag verða fluttir sálmar Sigurbjörns við lög Jóhanns Helgasonar. 

Aðgangur er ókeypis að öllum dagskrárliðum Bústaðakirkju í Bleikum október, en boðið verður upp á að leggja endurhæfingarmiðstöðinni Ljósinu lið, með fjárframlagi. Í fyrra afhentu fulltrúar Bústaðakirkju og Kvenfélags Bústaðasóknar Ljósinu kr. 500.000.- í kjölfarið á Bleikum október. 

Verið hjartanlega velkomin á Bleikan október í Bústaðakirkju.