18
2024 April

Bleikur október í Bústaðakirkju

Bleikur október er yfirskrift listamánaðar 2022 í Bústaðakirkju. Hádegistónleikar munu fara fram alla miðvikudaga í október kl. 12:05 - 12:30. Að loknum tónleikum er boðið upp á léttan hádegisverð gegn vægu gjaldi í safnaðarheimili kirkjunnar. Fjöldi listamanna munu koma fram á hádegistónleikunum og einnig í sunnudagshelgihaldi Bústaðakirkju í október.

Sigurður Flosason saxafónleikari, Kristján Jóhannsson, tenór, Jóhann Friðgeir Valdimarsson, tenór, Matthías Stefánsson, fiðluleikari, Benedikt Kristjánsson, tenór, ásamt Jónasi Þóri kantor og kammerkór Bústaðakirkju, svo einhverjir séu nefndir. Ný sálmabók verður kynnt og mun Margrét Bóasdóttir söngmálastjóri þjóðkirkjunnar fylgja henni úr hlaði með hádegiserindi sunnudaginn 2. október. Í helgihaldinu þann dag mun séra Kristján Valur Ingólfsson fv. vígslubiskup í Skálholti prédika. 

Tónlistin í sunnudagshelgihaldi októbermánaðar verður fjölbreytt, þar sem nýir sálmar verða í fyrirrúmi 2. október. Bandarísk tónlist, sálmar, gospel og blús verða í fyrirrúmi í Bolvíkingamessu 9. október. Norskir sálmar og tónlist eftir Grieg, Kverno, Lövland og fleiri, verða á oddinum 16. október. Bítlalög og ljóð verða á dagskránni 23. október. Mozart verður síðan í bleiku síðasta sunnudag októbermánaðar, þann 30. október. 

Kammerkór Bústaðakirkju ber uppi þessa fjölbreyttu dagskrá, ásamt kantor kirkjunnar, Jónasi Þóri.

Bleikur október styður Ljósið. Þ.e.a.s. tónleikagestum á hádegistónleikum í október gefst kostur á að leggja mikilvægu starfi Ljóssins lið.

Dagskrána í heild sinni má finna hér með þessari frétt.  

Verið hjartanlega velkomin í Bústaðakirkju í bleikum október.

Staðsetning / Sókn