22
2024 júní

Aukin þjónusta á aðventu

Aðventan er gjarnan erilsamur tími í kirkjum landsins. Til viðbótar við helgihald, æskulýðsstarf, fermingarfræðslu, eldriborgarastarf, karlakaffi, kirkjuprakkara, kóræfingar, tólf spora starf, barnamessur, prjónakaffi, kyrrðarstundir, kennslu í Versló, núvitundarstundir og annað hefðbundið vetrarstarf, bætast við ýmsar aðventuheimsóknir, jólagleði á vinnustöðum sem og aukið starf á vegum kirkjunnar. 

Í Fossvogsprestakalli höfum við á þessari aðventu tekið á móti ýmsum góðum gestum og hópum bæði í Grensáskirkju og Bústaðakirkju og erum við þakklát fyrir það samstarf allt.

Einnig hafa prestar og djáknar prestakallsins heimsótt vinnustaði og þjónustumiðstöðvar ýmsar og tekið þar þátt í aðventustundum og helgihaldi.

Þá hafa ýmsir dagskrárliðir á vegum kirkjunnar, til dæmis Kvenfélags Bústaðasóknar, verið á dagskránni.

 

Um 1000 börn, kennarar og starfsfólk í heimsókn

Starfsfólk vinnustaðarins Lækjaráss kom í heimsókn í Grensáskirkju á aðventunni. Daníel Ágúst Gautason djákni tók á móti hópnum og leiddi stundina ásamt séra Maríu G. Ágústsdóttur og Ástu Haraldsdóttur kantór kirkjunnar. 

Þá komu einnig kennarar, starfsfólk og nemendur Breiðagerðisskóla, leikskólans Kvistaborgar og Fossvogsskóla í heimsókn í Bústaðakirkju. Séra Eva Björk Valdimarsdóttir, séra Þorvaldur Víðisson, Hólmfríður Ólafsdóttir djákni og Jónas Þórir kantór kirkjunnar, tóku á móti hópunum. Kórar á vegum skólanna sungu við undirleik Jónasar Þóris, börn lásu Grýlukvæði eftir Gunnar Karlsson. Talað var um táknin í kirkjunni, jólaguðspjallið og mikilvægi þakklætisins um jólin. Jólalögin voru sungin og jólasálmarnir. 

Umfjöllun um heimsókn Breiðagerðisskóla má sjá hér í fréttabréfi skólans.

Í Fossvogsprestakalli fögnum við góðu samstarfi við stofnanir, skóla og félagasamtök í nærumhverfi kirkjunnar og þökkum góðar heimsóknir í kirkjuna á þessari aðventu. Í kirkjurnar hafa komið um 1000 kennarar, starfsfólk og nemendur í sérstakar aðventuheimsóknir, til viðbótar við allan þann fjölda sem tekið hefur þátt í hinu hefðbundna helgihaldi og hinni hefðbundnu dagskrá á vegum kirknanna.

Myndin hér til hliðar er tekin á aðventuhátíð Bústaðakirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu, þar sem Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn flutti hugvekju fyrir fullri kirkju. 

 

 

Börnin í fyrirrúmi

Barnahópar hafa tekið þátt í kirkjustarfinu á þessari aðventu. Á aðventuhátíð Grensáskirkju á öðrum sunnudegi í aðventu lék fiðlusveit frá Suzukitónlistarskólanum í Reykjavík dýrðlega fyrir kirkjugesti. 

Svo hafa barnakórar sungið. Barnakór TónGraf og TónFoss undir stjórn Eddu Austmann og Auðar Guðjohnsen, sem og barnakór Breiðagerðisskóla undir stjórn kennara sinna og við undirleik Jónasar Þóris. Einnig er samstarf við skólahljómsveit Austurbæjar sem mun spila í fjölskyldumessu í Bústaðakirkju á fjórða sunnudegi í aðventu. 

Prestar og djáknar á ferð og flugi

Prestar, djáknar, organistar og kórar Fossvogsprestakalls sinna einnig þjónustu á hinum ýmsum þjónustumiðstöðvum borgarinnar og hjá félagasamtökum í sóknunum.

Á aðfangadegi jóla mun séra Eva Björk Valdimarsdóttir leiða helgihald í Mörkinni ásamt Ástu Haraldsdóttur kantór og Kirkjukór Grensáskirkju. Hún leiddi einnig jólastund á Sléttunni - Hrafnistuheimilinu Sléttuvegi, á aðventu, ásamt Jónasi Þóri kantór og Grétu Hergils Valdimarsdóttur, sópran. 

Einnig hefur starfsfólk prestakallsins sinnt aðventu- og/eða jólastundum í dagþjálfun aldraðra Múlabæ, Selinu Sléttuvegi, þjónustumiðstöðinni Hæðargarði, þjónustumiðstöðinni Hvassaleiti, þjónustumiðstöðinni Furugerði sem og í Maríuhúsi, sem er dagvist fyrir heilabilaða. En starfsfólk og skjólstæðingar Maríuhúss komu og áttu aðventustund með eldri borgurum í Bústaðakirkju á aðventunni, þar sem allir fengu með sér gjöf í poka að samveru lokinni.  

Öll þessi þjónustu og samstarf er kirkjunum í Fossvogsprestakalli dýrmæt. 

Kvenfélagið og aukin þjónusta á aðventunni

Á aðventunni er einnig aukin dagskrá og þjónustu í kirkjunum. Aðventuhátíðir voru haldnar, þar sem fermingarbörn tóku virkan þátt, kórar og barnakórar sungu og fjölmenni mætti. Fermingarbörnin hafa verið sýnileg í helgihaldinu þar sem þau tóku þátt í ljósahelgileik bæði í Bústaðakirkju og Grensáskirkju.

Á síðasta sunnudegi í aðventu, 18. desember kl. 11 mun Skólahljómsveit Austurbæjar spila í fjölskylduguðsþjónustu í Bústaðakirkju. Stjórnandi Skólahljómsveitarinnar er Snorri Heimisson. 

Kvenfélag Bústaðasóknar hélt sinn jólafund, þar sem þátttakendur fengu tækifæri á að styrkja Kvenfélagið í sínu mikilvæga starfi. Kvenfélagið hefur á þessu hausti veitt Ljósinu 300 þ.kr. fjárstuðning til góðra verka, einnig hefur Kvenfélagið veitt fé sem ráðstafað er til þurfandi innan sóknarinnar. 

Á jólafundinum var dýrindis kvöldverður reiddur fram og happdrætti ríkulegt. Þakkarefni er hve margir eru tilbúnir að leggja Kvenfélaginu lið með vinningum til happdrættisins. Öllum er þeim þakkað framlagið. Kvenfélagið er öflugur bakhjarl sóknarinnar og hefur Kvenfélagið stutt ríkulega við starfið og ýmsar framkvæmdir í kirkjunni. Jólafundinum lauk á samveru inn í kirkjunni þar sem Katrín Eir Óðinsdóttir, sópran, söng við undirleik Jónasar Þóris. (sjá mynd)

 

Framkvæmdir og ómetanleg sjálfboðavinna

Kirkjur prestakallsins, Bústaðakirkja og Grensáskirkja eru til prýði í hverfunum sínum. Kirkjurnar og innviðir þeirra styðja við boðun fagnaðarerindisins. 

Grensáskirkja er byggð með það í huga að kirkjuskipið minni á biðjandi hendur.

Bústaðakirkja er byggð með það í huga að kirkjuskipið minni á skip, eða réttara sagt örk, þ.e.a.s. Örkina hans Nóa. 

Þannig vísa byggingarnar sjálfar til mikilvægra þátta sem styðja við þjónustuna og boðskapinn. 

Húsum sem þessum þarf að sinna, stöðugt þarf að huga að viðhaldi. Sóknarnefndarfólk, formenn sóknarnefnda, Erik og Þorsteinn Ingi og fleiri hafa þar gefið ómælda vinnu, við að halda öllu í góðu horfi og hefur Hafsteinn Guðmundsson sóknarnefndarmaður farið þar fremstur meðal jafningja og leitt endurbætur og framkvæmdir í báðum kirkjum prestakallsins af mikilli fagmennsku. Á þessari mynd má sjá Hafstein ásamt Ásbirni Björnssyni framkvæmdastjóra Fossvogsprestakalls. Í lyftunni með þeim er síðan Stefán Ingvarsson verktaki inni í Bústaðakirkju. 

Í Grensáskirkju hafa staðið yfir miklar endurbætur og framkvæmdir, þar sem Biskupsstofa hefur nú flutt inn skrifstofur sínar. Við förum að sjá fyrir endann á þeim framkvæmdum öllum. 

Í Bústaðakirkju hefur einnig farið fram vinna við eðlilegt viðhald að utan og innan, þar sem þessi mynd var m.a. tekin. 

Jólin í Fossvogsprestakalli

Mikið verður um dýrðir um jólin í Fossvogsprestakalli. Allt hefðbundið helgihald verður á sínum stað um hátíðarnar. Aðfangadagskvöld klukkan 18, bæði í Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Fyrr um daginn eða klukkan 16 á aðfangadag verður barnastund í Bústaðakirkju. Miðnæturguðsþjónusta verður síðan í Grensáskirkju á jólanótt og hefst kl. 23:30. Hátíðarguðsþjónusta verður á jóladag klukkan 13 í Bústaðakirkju og klukkan 14 í Grensáskirkju. Kirkja heyrnarlausra mun hafa sitt jólahelgihald á öðrum degi jóla í Grensáskirkju, eins og undanfarin ár.

Jólaball fer fram í Bústaðakirkju 27. desember kl. 15, þar sem góðir rauðklæddir gestir eru væntanlegir.

Um áramótin verða hátíðarguðsþjónustur í báðum kirkjum á gamlársdag klukkan 18 og á nýársdag klukkan 13 í Bústaðakirkju og klukkan 14 í Grensáskirkju. 

Nánari upplýsingar um helgihaldið um hátíðarnar má finna á plakati hér á heimasíðunni. 

Verið hjartanlega velkomin í Grensáskirkju og Bústaðakirkju um hátíðarnar.