Aðalsteinn Ásberg og hluti áheyrenda dagsins
Sálmaskáldið, rithöfundurinn, tónlistarmaðurinn og útgefandinn Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson flutti áhugavert erindi í eldri borgarastarfi Fossvogsprestakalls í Bústaðakirkju, miðvikudaginn 2. nóvember.
Aðalsteinn Ásberg sagði frá tilurð þess að hann fór að semja sálma. Hann las einnig valda texta sem hann fléttaði við lífsreyslu sína og lífsferil.
Í nýju sálmabók hinnar íslensku þjóðkirkju eru fjölmargir sálmar eftir Aðalstein Ásberg og er eftirfarandi sálmur einn þeirra:
Ljósfaðir, viltu lýsa mér
langan dag, myrka nótt,
vekja minn hug til varnar skjótt
ef vélráðin á mér tökum ná,
beina mér brautina á.
Ljósfaðir, viltu vera mér
vinarhönd, lífsins blóm,
opna míns hjarta helgidóm
og hamingjudaga minna á,
beina mér blekkingum frá.
Ljósfaðir, viltu vernda mig,
veita mér öruggt skjól,
hefja til vegs þitt höfuðból
svo heimurinn allur sjái það,
beina mér bjargráðum að.
Ljósfaðir, viltu leiða mig,
ljá mér þinn sterka arm,
svala þorsta og sefa harm,
í sannleika skapa undur ný,
beina mér birtuna í.
Við þökkum Aðalsteini Ásbergi innilega fyrir komuna og óskum honum blessunar í öllu því sem hann er að fást við.