Raddir barna á Gaza: Friðarmessa í Bústaðakirkju

Raddir barnanna á Gaza verða á dagskránni í Bústaðakirkju næstkomandi sunnudag 25. febrúar klukkan 13:00. 

Stundina leiðir sr. Daníel ásamt messuþjónum. Jónas Þórir leiðir tónlistina ásamt félögum úr kammerkór Bústaðakirkju. Sungnir verða Taizé-söngvar, einfaldir og auðsungnir samkirkjulegir sálmar.

Unicef hefur safnað saman og birt reynslusögur barna frá Gaza og mun sr. Daníel æskulýðsprestur miðla völdum reynslusögum í prédikun sinni í helgihaldi dagsins í Bústaðakirkju. 

Þeir sem líða helst í stríði eru þeir sem síst skyldi, börnin og aðrir í viðkvæmri stöðu, hvort sem það er í Úkraínu, á Gaza eða hvar sem ófriður ríkir.

Nauðsynlegt er að hlusta á reynslu þeirra sem líða, reynslu barnanna, að samfélagið og heimurinn allur heyri raddir barnanna.