Afmælishátíð Bústaðakirkju: Fjölskylduguðsþjónusta kl. 11
Á fyrsta sunnudegi í aðventu, 27. nóvember, höldum við afmælishátíð Bústaðakirkju, fyrst með fjölskylduguðsþjónustu kl. 11 og vöfflukaffi, og síðan aðventuhátíð kl. 17. Allir aldurshópar eru velkomnir í fjölskylduguðsþjónustuna - það er ekki guðsþjónusta kl. 13 á aðventunni. Við syngjum saman sunnudagaskólalögin og líka aðventusálmana. Meðal annars æfum við sálm um kertin á aðventukransinum sem er nýkominn inn í sálmabókina okkar og er eftir Herdísi Egilsdóttur.
Boðskapur aðventunnar er að Guð kemur til okkur og mætir okkur eins og við erum. Þeim boðskap miðlum við bæði með brúðuleik og stuttri hugvekju. Og svo höldum við upp á afmæli Bústaðakirkju með vöfflukaffi í boði sóknarnefndar Bústaðakirkju en kirkjan var vígð á fyrsta sunnudegi í aðventu árið 1971 og er því orðin 51s árs. Öll afmælisbörn sérstaklega velkomin! Síðdegis er svo vegleg aðventuhátíð með miklum söng og hátíðleik. Þar talar Víðir Reynisson sem okkur er að góðu kunnur.
Við kveikjum fyrsta kerti á
Í nýju sálmabókinni okkar er aðventusálmur eftir Herdísi Egilsdóttur, kennara, sem hún samdi árið 1997. Sálmurinn er sunginn við sama lag og kertasöngurinn sem við þekkjum flest og er eftir Lilju S. Kristjánsdóttur. Sálmur Herdísar fjallar á skýran hátt um heiti aðventukertanna og því ætlum við að nota hann á þessari aðventu í Fossvogsprestakalli.
Sálmurinn er númer 8 í sálmabók þjóðkirkjunnar og er svona:
1. Við kveikjum fyrsta kerti á.
Það kennt við spádóm er
um fátækt barn í fjárhúskró
með frið í hjarta sér.
2. Við kveikjum öðru kerti á.
Af kærleik fyllast menn.
Sitt nafn það ber af Betlehem,
þar barnið fæðist senn.
3. Við kveikjum þriðja kerti á.
Það kennt er hirða við
sem gættu kinda´ um napra nótt
í nánd við fjárhúsið.
4. Við kveikjum fjórða kerti á.
Nú komin eru jól
og englar syngja undurblítt
svo ómar heims um ból.