Litrík og fjölbreytt listaverk
Nemendur Fjölbrautarskólans við Ármúla, undir handleiðslu kennara sinna, efna til myndlistarsýningar í safnaðarheimili Grensáskirkju. Sýningin opnar á morgun, föstudaginn 31. mars og stendur fram yfir páska og út aprílmánuð.
Hér má sjá hluta af þeim myndum sem prýða sýninguna.
Grensáskirkja heppileg til slíkrar fræðslu og umfjöllunar
Fjölbrautarskólinn við Ármúla og Grensáskirkja efndu í upphafi árs til samstarfs um táknin í kirkjunni, myndlist og myndlistarsýningu. Grensáskirkju prýða glerlistaverk eftir okkar helsta listamann á því sviði, Leif Breiðfjörð.
Glerlistaverk Leifs eru rík af táknum og litum. Kennarar við listadeild Fjölbrautarskólans við Ármúla heimsóttu Grensáskirkju í vetur þar sem starfsfólk Grensáskirkju tók á móti hópnum ásamt Leifi Breiðfjörð og Sigríði Jóhannsdóttur. Leifur og Sigríður fjölluðu um gluggana, aðdragandann að gerð þeirra, framkvæmdina, uppsetninguna og þau tákn sem gluggana prýða.
Einnig heimsótti Þorvaldur Víðisson kennara og nemendahóp í Fjölbrautarskóalnum við Ármúla í vetur þar sem hann kynnti jafnframt táknin sem finna má í Grensáskirkju.
Grensáskirkja er rík af táknum og því heppileg til slíkrar kennslu og miðlunar.
Myndlistarsýningin opnuð
Í kjölfar umfjöllunar um táknin í kirkjunni unnu nemendur verkefni undir handleiðslu kennara sinna og sýna nú afraksturinn í safnaðarheimili Grensáskirkju.
Safnaðarheimili Grensáskirkju er opið mánudaga til fimmtudaga frá klukkan 10 til 15, einnig er opið alla sunnudaga frá klukkan 10 til 12:30.
Verið hjartanlega velkomin á listasýningu nemenda Fjölbrautarskólans við Ármúla, í safnaðarheimili Grensáskirkju.