23
2024 November

Vorhátíð með pompi og prakt

Vorhátíð barnastarfsins var haldin með pompi og prakt í síðustu barnamessunni í Bústaðakirkju fyrir vetrarfrí. Danni, Sólveig, Hilda, Kata, Iðunn, María og Jónas Þórir voru öll á svæðinu til þess að fagna sumrinu.

Mætingin var þrumugóð, en nóg var um að vera. Barnakór Fossvogs var á staðnum og sungu þau fjögur lög fyrir okkur. Tveir ungleiðtogar frá Fossvogsprestakalli útskrifuðust úr Leiðtogaskóla Þjóðkirkjunnar. Svo náði söfnuðurinn í sameiningu að fylla kirkjuna af endum, með samblöndu af leiklist og dansi. 

Eftir kirkjustundina var haldið út þar sem að nýi, hellulagði krossinn fyrir utan kirkjunnar var blessaður við fallega athöfn. Þá var boðið upp á sumargrill, hoppukastala, andlitsmálun og blöðrudýr.

Barnakór Fossvogs

Hressir krakkar úr Barnakór Fossvogs voru á svæðinu og sungu fyrir söfnuðinn. Kórstjórinn Sævar Helgi Jóhannsson kynnti lögin og leiddi sönginn með prýði, en auk hans var Edda Austmann, skólastjóri Tónskólans í Grafarvogi, með kórnum.

Kórinn söng fjögur lög, en öll höfðu þau það sameiginlegt að vera sungin af innlifun og gleði. Þá einkenndust lögin af því að vera skemmtileg og sumarleg, og í grillinu eftir stundina inni í kirkju mátti enn heyra sönglað:

"Á morgun kemur sólin,
hvar verðum við skýin þá?"

Útskrift Leiðtogaskóla Þjóðkirkjunnar

Tveir ungleiðtogar frá Fossvogsprestakalli voru útskrifaðir úr Leiðtogaskóla Þjóðkirkjunnar í barnamessunni. Það voru þeir Arnór Gauti og Gabríel Bjarmi.

Leiðtogaskólinn er námskeið þar sem ungmenni fáþjálfun í að leiða og stjórna kirkjulegu starfið, með áherslu á æskulýðsstarf. Námsefnið er viðamikið, alveg frá trúarlegum pælingum að heilræðum og siðareglum þegar unnið er með ungmönnum. Tilgangurinn er að þjálfa, styrkja og gefa leiðtogaefnum tækifæri á því að kynnast og upplifa hvað Þjóðkirkjan hefur upp á að bjóða. Kennarinn er Anna Elísabet Gestsdóttir, Lísa, djákni og svæðisstjóri æskulýðsmála á höfuðborgarsvæðinu. Hún, auk nemenda úr Leiðtogaskólanum, voru mætt til þess að fagna með útskriftarnemunum. 

Arnór og Gabríel hafa báðir verið við æskulýðsstarfið okkar síðan á fermingaraldri og hafa jafnvel tekið að sér að leiða æskulýðsfundi. Við erum gríðarlega stollt af þessum herramönnum og því sem að þeir hafa upp á að bjóða. Við fögnum útskriftinni þeirra og hlökkum til að fá þá enn meira inn í æskulýðsstarfið hjá okkur. 

Krossinn blessaður

Nýlega var svæðið fyrir utan aðalinngang Bústaðakirkju tekið rækilega í gegn. Þá var nýr kross hellulagður fyrir utan kirkjuna sem hefur vakið mikla athygli. Þessi kross var svo blessaður í dag með aðstoð barna og fullorðinna.

Sr. María fékk með sér börn til að standa með sér á krossinum meðan hann var blessaður. Hún minnti á að krossinn er tákn friðar, tákn lífsins og tákn umhyggju. Því var einnig viðeigandi að krossinn var blessaður á sjáfan mæðradaginn.

Blessunin endaði á að sofnuðurinn fór í sameiningu með friðarbæn Frans frá Assisí, sem hvetur okkur til að mæta manneskjum með kærleika.

Hoppukastalar, grill og gleði

Sumargrillið er ómissandi í vorhátíð barnastarfsins. Grillaðar voru geisilega margar pylsur, en nóg var til handa öllum. Eftir pylsurnar fengu börnin að fara í hoppukastala. Hoppukastalinn passaði vel inn í vorhátíðina, enda sumarlega skreyttur með grænum pálmatrjám. Hoppukastalinn var vinsæll að vana, en börnin voru dugleg að bíða þolinmóð í röðinni. 

Blöðrudýr og andlitsmálun

Inni var boðið upp á andlitsmálun og blöðurdýr. Það voru ungleiðtogar úr Leiðtogaskólanum sem að sáu um að skreyta söfnuðinn með glæsibrag. Ljón, kóngulóarmaðurinn, regnbogi, froskur, dreki og jafnvel SÁÁ-álfurinn ver meðal þess sem að boðið var upp á.

Það var svo Gabríel ungleiðtogi sem að sá um að gera blöðrudýrin. Hann takmarkaði sig þó ekki aðeins við dýr, því auk hunda, katta, kanína og gíraffa, bauð hann líka upp á glæsileg og algjörlega hættulaus sverð. 

Sumargjöf: Sögur úr Biblíunni

Í stundinni inni í kirkju fékk söfnuðurinn sumargjöf. Það sem er sérstakt við þessa sumargjöf er að hún er í símanum.

Á heimasíðu Fossvogsprestakalls og á Spotify er nú hægt að nálgast lestur á völdum Biblíusögum, sjá hér. Í starfi Bústaðakirkju og Grensáskirkju er lagður metnaður í að koma hinum góða boðskap á framfæri til barnanna og er það gert með ýmsu móti. Barnamessur og fjölskyldumessur eru hornsteinar í því starfi yfir vetrartímann. Yfir sumartímann er nú hægt að hlusta á biblíusögurnar lesnar af Danna, við undirleik Jónasar Þóris organista, þar sem rauði þráðurinn er kærleikur Guðs til heimsins og allra manna, og þar með þín og mín.

Við þökkum kærlega fyrir frábæra þátttöku í vorhátíð barnastarfsins, sem og fyrir dásamlegan vetur í barnamessunum. Barnamessurnar hefjast svo aftur næsta haust.