07
2023 November

Vinir Hjálparstarfs kirkjunnar þétta raðirnar, viltu vera með?

Vinir Hjálparstarfs kirkjunnar ætla að hittast í safnaðaheimili Grensáskirkju mánudaginn 28. nóvember kl. 12:00 og snæða saman aðventu- og jólamat. Öll sem áhuga hafa á starfi Hjálparstarfs kirkjunnar og vilja leggja starfinu lið eru hjartanlega velkomin, en tilkynna þarf þátttöku á netfangið help@help.is eða í síma 528 4400 fyrir kl. 9:00 fimmtudaginn 24. nóvember. Verð fyrir hádegisverðinn er kr. 2.000.- og mun ágóðinn renna til Hjálparstarfs kirkjunnar. Í eldhúsinu verða Bent Pedersen og Kolbrún Guðjónsdóttir, sem annast um eldamennskuna í sjálfboðaliðavinnu.

Yfir hádegisverðinum mun félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar kynna stuttlega þá aðstoð sem Hjálparstarf kirkjunnar býður upp á um land allt, fyrir jólin. Rætt verður um nýjar leiðir til stuðnings Hjálparstarfinu.

Vinir Hjálparstarfsins komu fyrst saman í Grensáskirkju á Siðbótardaginn 31. október sl. þar sem fólki gafst kostur á að styrkja hjálparstarfið. Þar voru dýrindis íslenska kjölbollur á boðstólnum með kartöflum, grænum baunum, rauðkáli og brúnni sósu, ásamt rabbarbarasultu.

Hugmyndin að baki samverunum er að fólk geti hist stutt í hádeginu, borðað saman og rætt málefni Hjálparstarfsins og hvernig hver og einn og hópurinn í heild sinni geti stutt við starfið.

Hugmyndin kviknaði hjá séra Bjarna Þór Bjarnasyni og með honum í undirbúningshópnum eru Halldór Kristinn Pedersen og Erik Pálsson, auk starfsfólks Hjálparstarfs kirkjunnar og presta og starfsfólks Grensáskirkju.

Öll sem hafa áhuga á starfi Hjálparstarfs kirkjunnar og vilja leggja starfinu lið eru hjartanlega velkomin.  

Staðsetning / Sókn