15
2024 July

Aðgengilegar á Spotify og heimasíðu Fossvogsprestakalls

Á heimasíðu Fossvogsprestakalls og á Spotify er nú hægt að nálgast lestur á völdum Biblíusögum, sjá hér.

Lengi hefur verið talað um mikilvægi þess að miðla Biblíusögum til ungu kynslóðarinnar, þar sem skólarnir sinna slíku í minna mæli í dag en áður. 

Í starfi Bústaðakirkju og Grensáskirkju er lagður metnaður í að koma hinum góða boðskap á framfæri til barnanna og er það gert með ýmsu móti. Barnamessur og fjölskyldumessur eru hornsteinar í því starfi yfir vetrartímann, sem og barnakórastarf, kirkjuprakkarar, TTT og æskulýðsfélagið Poný sem hefur gengið vel á liðnum vetri, auk fermingarfræðslunnar. 

Mikilvægt er einnig að nýta alla farvegi miðlunar til að koma sögum Biblíunnar á framfæri og er nú stigið það skref að miðla þeim á veraldarvefnum á máli sem börnin skilja. 

Séra Daníel Ágúst Gautason æskulýðsprestur Bústaðakirkju og Grensáskirkju fór þá leið í vor að velja nokkrar Biblíusögur sem hann miðlar nú á afsakaplega aðgengilegan máta. 

Sjálfur les hann sögurnar við undirleik Jónasar Þóris organista, þar sem rauði þráðurinn er kærleikur Guðs til heimsins og allra manna, og þar með þín og mín.

Sögur úr Biblíunni, sjá á Spotify og heimasíðu Fossvogsprestakalls

Nú þegar eru 10 Biblíusögur aðgengilegar á heimasíðu Fossvogsprestakalls og Spotify. Þar á meðal er frásagan af mettuninni, Nóaflóðinu, Daníel í ljónagryfjunni, Sakkeusi, Samúel, Jónasi, týnda syninum, Pétri og Páli. Eins er dæmisaga Jesú af mönnunum tveimur sem annars vegar byggðu hús sitt á bjargi og hins vegar á sandi. 

Jónas Þórir leikur létta tónlist fyrir og eftir hvern lestur. Hægt er að hlusta á allar sögurnar í beit, eða hverja og eina, kannski eina á kvöldi fyrir svefninn. Allt eftir þörfum og vilja hvers og eins. 

Við vonum að sem flestir njóti.