Barnakór Grafarvogs og Fossvogs söng
Útvarpsmessa sunnudagsins 8. september 2024 mun hljóma úr Bústaðakirkju kl. 11:00. Upptaka fór fram miðvikudaginn 4. september. Fjöldinn allur af kórfólki, prestum, sjálfboðaliðum og starfsfólki tóku þátt.
Biskup Íslands, frú Guðrún Karls Helgudóttir flutti ávarp og blessaði söfnuðinn í lok stundarinnar. Séra Eva Björk Valdimarsdóttir biskupsritari las bæn og leiddi faðir vor.
Barnakór Grafarvogs og Fossvogs söng undir stjórn Auðar Guðjohnsen og Eddu Austmann, en kórinn söng tvö lög við texta Auðar, þar sem annað lagið var einnig samið af henni.
Á myndinni má sjá barnakórinn æfa undir stjórn Eddu og Auðar, við undirleik Jónasar Þóris.
Kammerkór Bústaðakirkju, prestar, sjálfboðaliðar og starfsfólk
Kammerkór Bústaðakirkju söng undir stjórn Jónasar Þóris, sem leiddi alla tónlistina í athöfninni.
Hólmfríður Ólafsdóttir djákni, Sólveig Franklínsdóttir æskulýðsfulltrúi, Eva Þórarinsdóttir djáknanemi og séra Sigríður Kristín Helgadóttir lásu bænir auk séra Evu Bjarkar.
Séra Þorvaldur Víðisson leiddi stundina og flutti hugvekju ásamt Sólveig Franklínsdóttur æskulýðsfulltrúa.
Ketill Ágústsson flutti frumsamið lag
Ketill Ágústsson flutti frumsamið lag og texta, ásamt Jónasi Þóri. Lagið er nýr skólasöngur Fossvogsskóla. Þemað er um frið og vináttu, líkt og yfirskrift barnastarfs kirkjunnar í vetur.
Friðflytjendur er yfirskrift barna- og æskulýðsstarfs kirkjunnar á komandi vetri. Kirkjan boðar frið. Boðskapur kristninnar er friðarboðskapur. Jesús segir í fjallræðunni: Sælir eru friðflytjendur, því þeir munu Guðs börn kallaðir verða! Á öðrum stað segir Jesús: Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður, hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
Verið hjartanlega velkomin í barnamessu í Bústaðakirkju í vetur. Verið hjartanlega velkomin í helgihaldið bæði í Bústaðakirkju og Grensáskirkju. Það er margt framundan hjá okkur í starfi kirkjunnar. Kynnið ykkur málið, komið og takið þátt.
Hér má sjá Ketil æfa fyrir upptökuna, ásamt Jónasi Þóri.