09
2024 April

Fjölmennt jólaball

Jólaball Fossvogsprestakall var haldið í Bústaðakirkju miðvikudaginn 27. desember síðastliðinn. Þessi árlegi viðburður er ávallt skemmtilegur og gefandi. Um 100 manns mættu í kirkjunni til að syngja jólalögin, dansa í kringum jólatréð og auðvitað til þess að hitta góðan gest sem að kom í heimsókn.

Litla jólabarn

Jólaballið byrjaði á stund inni í kirkju þar sem kveikt var á kertum og ballið helgað með signingu og bæn. Það var skellt í síðdegisæfingar með tveimur skrefum til hægri og tveimur til vinstri, og svo auðvitað fylgdu hálfhringirnir með. Það er nefnilega nauðsynlegt að hrissta sig aðeins til eftir allan matinn sem að fylgir hátíðinni. 

Brúðan Tommi kíkti við þegar sungið var Litla jólabarn, enda lítið jólabarn sjálfur. Hann hafði þó borðað aðeins yfir sig á jólunum en lofaði að muna að gæta meðalhófs næstu jól. Eða hann ætlaði að minnsta kosti að reyna að muna það.

Göngum við í kringum

Við jólatréð dugði ekkert minna en þrír hringir til þess að allir fengu sitt pláss. Og hring eftir hring var farið. Þrátt fyrir lagið góða sem var sungið af mikilli gleði, þá var það enginn einiberjarunn sem gengið var í kringum, heldur glæsilega skreytt jólatré. Auðvitað var svo sungið um jólasveinana líka. Það var sungið um þennan einn og þessa átta, um þá sem gengu um gólf og þennan sem að mamma kyssti.

Hurðaskellir mætti með látum

Talandi um jólasveina. Þessi rauðklæddi hávaðaseggur sem að kallaði sig Hurðaskelli Leppalúðason kom við á jólaballinu. Sá kom inn með miklum látum og hlátrasköllum. Hann virtist eitthvað ruglaður um hvað hann væri að gera þarna en var svo ekki lengi að skella sér inn í hringinn og syngja og dansa með. Auðvitað voru jólasveinalögin í miklu uppáhaldi hjá honum. Þá skellti hann fótunum hressilega niður þegar hann gekk um gólfið.

Með góðgæti í poka

Eftir að hafa ruglað smá í öllum aldurshópum gaf Hurðaskellir þeim af yngri kynslóðinni smá úr pokanum sínum. Börnin röðuðu sér fín og prúð upp í röð til þess að fá góðgæti frá jólasveininum.

Við þökkum Hurðaskelli kærlega fyrir komuna og vonum að hann kíki aftur við hjá okkur seinna

Gleðilega hátíð

Eftir að Hurðaskellir hélt áfram för sinni var boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur í safnaðarheimili kirkjunnar. Við erum þakklát öllum þeim sem að mættu og gerðu jólaballið svona skemmtilegt og lifandi. 

Gleðilega hátíð.