Sunnudaginn 19. mars var mikið um að vera í Bústaðakirkju. Fjölmennt var í barnamessunni kl. 11 sem Bára Elíasdóttir leiddi ásamt sr. Maríu og Jónasi Þóri. Gaman er að segja frá því að þær Bára og María störfuðu fyrst saman fyrir rúmum þrjátíu árum í sunnudagaskólanum í Dómkirkjunni í Reykjavík.
Í hádeginu komu hjónin Valrós og Halldór og kynntu starf sem þau hafa verið þátttakendur í lengi og nefnist Lúthersk hjónahelgi. Urðu góðar umræður eftir kynningu þeirra og þau sem farið hafa á helgi - eins og það er kallað - báru starfinu mjög vel söguna.
Messan kl. 13 var helguð Maríu móður Jesú í tali og tónum. Gréta Hergils flutti okkur þrjár Ave Maríur ásamt Jónasi Þóri og félögum úr Kammerkór Bústaðakirkju. Sr. María G. Ágústsdóttir talaði um Maríu mey sem fyrirmynd trúaðra.