02
2024 November

Fermingarstörfin hefjast

Upphaf fermingarstarfanna er vitnisburður um að sumarið er nú senn að baki, í það minnsta sumarfríin. Áralöng hefð hefur skapast fyrir fermingarnámskeiði í vikunni fyrir skólabyrjun og er engin breyting á því nú í Fossvogsprestakalli.  

Fermingarnámskeiðið hefst á morgun, miðvikudaginn 16. ágúst kl. 9, og stendur til klukkan 12. Námskeiðið er sameiginlegt fyrir fermingarbörn Bústaðakirkju og Grensáskirkju, en saman mynda þessar kirkjur Fossvogsprestakall. Námskeiðið mun standa í þrjá daga, miðvikudag, fimmtudag og föstudag kl. 9-12, alla dagana.

Dagskrá námskeiðsins er eftirfarandi:

- 16. ágúst mæta fermingarbörnin í kirkjuna sína, Grensáskirkju eða Bústaðakirkju, þ.e.a.s. þar sem þau ætla að fermast og/eða sækja fermingarfræðslu.

- 17. ágúst mæta þau öll í Grensáskirkju, þar sem við hefjum dagskrána þann daginn. Þaðan munum við svo ganga eða hjóla í Fossvogskirkjugarð og verjum morgninum þar.

- 18. ágúst mæta þau öll í Bústaðakirkju. 

Á fimmtudeginum má koma á hjóli til að hjóla í kirkjugarðinn og ef einhver á erfitt með að ganga þangað mega foreldrar skutla börnum sínum úr Grensáskirkju yfir í Fossvogskirkju. Nauðsynlegt er að koma með nesti alla dagana og vera klædd til útiveru á fimmtudeginum. 

Sunnudaginn 20. ágúst nk. eru síðan messur í Grensáskirkju kl. 11 og í Bústaðakirkju klukkan 20. Að loknu helgihaldinu í báðum kirkjunum verða fundir með fermingarbörnum og foreldrum/forráðamönnum þar sem dagskrá fermingarstarfs vetrarins verður kynnt. 

Fyrsti vikulegi fermingarfræðslutíminn er svo miðvikudaginn 6. september í Bústaðakirkju kl. 15:30 og 16:30 og fimmtudaginn 7. september í Grensáskirkju kl. 15:30. 

Verið hjartanlega velkomin til fermingarstarfanna í Bústaðakirkju og Grensáskirkju, hlökkum til að sjá ykkur.