02
2024 November

Foreldramorgun á hverjum fimmtudegi kl. 10

Foreldramorgnar fara fram á hverjum fimmtudagsmorgni kl. 10 í Bústaðakirkju. Gengið er inn af Bústaðavegi. Stundum fáum við góða gesti í heimsókn, líkt og við gerðum fimmtudaginn 23. febrúar sl. Þá kom Carolina Schinder í heimsókn. 

Carolina sem er listmeðferðarfræðingur (Art Therapist) og sagði hún okkur aðeins frá vinnunni sinni. Hún starfar annars vegar á leikskóla sem "sérkennari" (af því að starfsheitið "listmeðferðarfræðingur" er ekki til á leikskólum), og hins vegar sem listmeðferðarfræðingur á BUGL (barna- og unglingageðdeild Landspítalans). Hún notar myndlistina sem tæki til að hjálpa til í samtölum við skjólstæðinga sína. Stundum eiga börn og unglingar erfitt með að tjá sig með orðum og vilja stundum alls ekki tala, sérstaklega ekki um tilfinningar. Hún tók sérstaklega fram að þetta er alls engin myndlistarkennsla og það þarf heldur ekkert að kunna í myndlist til að nota teikningar sem aðstoð við samtalið.

Carolina fékk nýlega viðurkenningu/hvatningarverðlaun frá Reykjavíkurborg fyrir sérstakt skynfæraverkefni sem hún bjó til fyrir börn frá eins til þriggja ára í leikskóla. Í þessu leikskólaverkefni er athyglinni beint að skynfærunum og unnið með lykt, bragð, sjón og heyrn og hún notar líka bækur um skynfærin þar sem mikið er af myndum en lítið af texta. Það sköpuðust nokkrar samræður um þetta verkefni og Carolina lagði áherslu á að það mætti leggja meiri áherslu á það strax á leikskólaaldri að kenna börnunum að þekkja tilfinningarnar sínar og læra orð yfir þær svo þau geti tjáð sig um eigin líðan. Einnig að börn átti sig á að upplifanir okkar í sömu aðstæðum geta verið mjög mismunandi og það er allt í lagi og alveg eðlilegt.

Við þökkum Carolinu innilega fyrir komuna, fræðsluna og þátttökuna á foreldramorgni í Bústaðakirkju. 

Staðsetning / Sókn